Það mætti ætla að úrslitaorrustan í frelsisstríði Færeyinga stæði nú sem hæst. Að minnsta kosti láta hinir og þessir nú eins og Íslendingar hafi brugðist á ögurstundu með því að taka ekki þegar í stað undir þá tillögu að Færeyjar fengju fulla aðild að Norðurlandaráði. Málið hefur þegar ratað inn á alþingi og hafa menn bæði vísað til þess að Ísland hafi á sínum tíma viðurkennt fullveldi Eystrasaltsríkjanna sem og þess að Íslendingar hafi sjálfir barist fyrir sjálfstæði undan Dönum og sé málið því skylt.
Gallinn er bara sá að þessi mál eru með öllu ósambærileg. Færeyjar hafa ekki lýst yfir sjálfstæði. Færeyingar voru ekki að biðja Íslendinga eða aðra um að viðurkenna fullveldi sitt heldur um að veita sér fulla aðild að tilteknu ráði, ráði þar sem meðal annars Danmörk er fullgildur meðlimur. Það er einfaldlega allt annar hlutur. Krafan sem menn gera hér heima þessa dagana er því sú að land, sem ekki hefur lýst yfir sjálfstæði og sem ekkert land lítur á sem fullvalda ríki, fái fulla aðild að ráði nokkurra fullvalda ríkja og það gegn vilja þess ríkis sem þetta landsvæði tilheyrir. Auðvitað er voða gaman að vera sérstakur baráttumaður fyrir sjálfstæði Færeyja og í sjálfu sér ekkert að því að viðurkenna fullveldi Færeyja þegar þær lýsa yfir sjálfstæði. En það er óþarfi að gera það á undan þeim sjálfum.
Það er svo að auki nokkuð sérstakt að líkja óskum um aðild Færeyja að Norðurlandaráði við frelsisbaráttu Eystrasaltslandanna. Það að reyna að brjótast undan Sovétríkjunum er bara nokkuð annað en að reyna að komast í Norðurlandaráð og verðskuldar ekki sama stuðning annarra ríkja. En að vísu virðast margir telja ólíklegustu hluti alveg til jafns við Sovétríkin. Á þriðjudaginn fjallaði Silja Aðalsteinsdóttir í DV um sýningu Stúdentaleikhússins á verkinu 1984 og sagði þar meðal annars: „Saga Orwells um alræðisríkið var hugsuð sem víti til varnaðar fremur en spásögn en hefur auðvitað iðulega reynst hastarlega sannspá. Þó hefur „mannsandinn“ sem Winston trúir á oft risið upp eftir langvarandi kúgun eins og sjá má ef hugsað er til þróunar í löndum eins og Sovétríkjunum eða Chile.“