Föstudagur 31. október 2003

304. tbl. 7. árg.

J óhanna Sigurðardóttir alþingismaður er dugleg að spyrjast fyrir um ferða- og risnukostnað ríkisstofnana og ráðuneyta. Fjármálaráðuneytið svaraði í vikunni nýjustu fyrirspurn hennar og þar kemur fram að ríkisstarfsmenn eyddu 2.425 milljónum króna í ferðalög á síðasta ári og 325 milljónir fóru í risnu. Samtals 2.750 milljónir króna. Ef að meðalferðin kostar 100 þúsund krónur og tekur tvo daga fara ríkisstarfsmenn í 25 þúsund ferðir á ári og eru 50 þúsund daga á ferðinni. Það gætu því verið 200 ríkisstarfsmenn á ferðinni á hverjum virkum degi ársins. Ein góð þota full af ríkisstarfsmönnum í brýnum erindisgjörðum.

Ríkisútgjöld hafa aukist mjög undanfarin ár. Stefnir í að þau hafi aukist um 100 milljarða frá árinu 1998 áður en langt um líður. Svo skemmtilega vill til að ferða- og risnukostnaður hefur haldist mjög í hendur við almenna þróun ríkisútgjalda. Ríkisútgjöldin voru 190 milljarðar árið 1998 og stefna í yfir 280 milljarða á næsta ári, á verðlagi hvors árs. Ferða- og risnukostnaðurinn var 1.900 milljónir árið 1998 og fer án efa yfir 2.800 milljónir á næsta ári, á verðlagi hvors árs. Það virðist vera lögmál að 1% ríkisútgjalda fer í risnu og flakk ríkisstarfsmanna. Það er sama hve miklu er eytt í annað, ríkisstarfsmenn gefa ekki eftir hundraðshlutann sinn til ferðalaga og risnu.

Undanfarin ár hefur verið dýrt og viðamikið verkefni í gangi hjá ríkinu sem nefnist Íslenska upplýsingasamfélagið. Ekki er ástæða til að efast um að þarna hefur tekist vel til. Margir ríkisstarfsmenn hafa tileinkað sér mús, lyklaborð, leitarvélar og fleiri undratæki upplýsingasamfélagsins. Og gott ef Íslendingar standa ekki fremstir í flokki í nýtingu upplýsinga- og fjarskiptatækni samkvæmt skýrslu sem kom frá World Economic Forum í gær.

Það kemur því ekki aðeins á óvart að þrátt fyrir óhemju aukningu ríkisútgjalda skuli flandur ríkisstarfsmanna um allar jarðir taka svo stóran skerf af ríkisútgjöldunum heldur virðist það ekki hafa dregið úr ferðalögum sem neinu skiptir að íslenskra upplýsingasamfélagið hefur verið að störfum undanfarin ár. Það skýrist þó að hluta af því að sjálft „íslenska upplýsingasamfélagið“ ferðaðist fyrir nokkrar milljónir króna á síðasta ári.

Í gær mælti Kolbrún Halldórsdóttir fyrir frumvarpi sínu og fleiri þess efnis að fólki verði gert refsivert að kaupa þjónustu vændiskvenna og -karla. Ríkisútvarpið sagði frá málinu og spilaði útdrátt úr framsöguræðu Kolbrúnar og ræddi svo við einn mann utan þings og hann reyndist sömu skoðunar og Kolbrún og telja frumvarp hennar mjög til bóta. Ríkisútvarpið kynnti þennan viðmælanda sinn sem „Atla Gíslason hæstaréttarlögmann“ en lét þess auðvitað ógetið að hann er auk þess varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, varamaður Kolbrúnar Halldórsdóttur nánar til tekið.