Laugardagur 1. nóvember 2003

305. tbl. 7. árg.

Á Alþingi hefur verið lagt fram lítið frumvarp um breytingu á áfengislögum. Frumvarpið felur í sér að heimilt verði að framleiða án leyfis vín úr innlendum berjum, ávöxtum eða jurtum til eigin neyslu sem í eru að rúmmáli minna en 15% af hreinum vínanda. Þetta frumvarp varð Kolbrúnu Halldórsdóttur tilefni til að kveða sér hljóðs og lýsa lífsviðhorfum sínum, svona rétt eins og þau væru ekki þegar kunn, og þá um leið þeim málstað sem vinstri grænir standa fyrir. Kolbrún gerði þetta að vísu ekki beint, en tókst óbeint að koma þessu að, því um leið og hún lýsti yfir stuðningi við frumvarpið hvatti hún aðra til að gera það jafnframt. En ekki alla aðra, heldur sérstaklega unga frjálshyggjumenn sem hefðu „stundað mikið frelsishjal“ og sem „vilji aldrei skerða frelsi einstaklingsins til nokkurs hlutar“ eins og hún kaus að orða það.

Já, þeir eru nú meiri mennirnir þessir ungu frjálshyggjumenn, vilja bara aldrei skerða frelsi einstaklingsins til nokkurs hlutar. Hvaða þrjóska er þetta eiginlega, eins og það sé nú ekki sjálfsagt að skerða frelsið svolítið hér og þar, eða jafnvel bara töluvert og víða. Hvað ætli fólk hafi svo sem að gera við frelsi til að ákveða sjálft hvernig það vill haga lífi sínu þegar það sjálft eða einhver annar hefur kosið sér svo ágæta þingmenn sem vita svo miklu betur hvað því er fyrir bestu. Hver hefur svo sem nokkuð við það að gera að kaupa áfengi af öðrum en ríkinu? Og hvern skyldi langa til að spila í happdrættiskössum? Eða horfa á erótískan dans, reykja í eigin húsnæði og taka í nefið? Nú eða brugga berjavín, til hvers góðs ætli það leiði nú?! Nei, það er sko miklu betra að banna þetta allt saman, og fyrst menn eru byrjaðir að banna óholla og siðferðilega umdeilda hluti, hvers vegna að láta staðar numið við þetta? Hvað hefur nokkur maður að gera við brjóstsykur, lakkrís eða gosdrykki? Eru nokkur rök fyrir því að leyfa slíka óhollustu? Og hvað með stórhættulegar íþróttir sem kosta heilbrigðiskerfið stórfé á hverju ári í slitnum liðböndum, fótbrotum eða þaðan af verri áverkum? Til hvers að leyfa slíka hegðun þegar hægt er að banna þetta allt saman og auka þannig heilbrigði almennings? Er ekki bara best að taka alfarið frá fólki þennan ógnvald sem sjálfsákvörðunarrétturinn er, pakka því inn í ríkisbómull og fóðra það samkvæmt tillögum manneldisráðs?

Annars er það einkennandi við berjavínsfrumvarpið og líklega er það skýringin á því að þingmaður vinstri grænna getur hugsað sér að styðja það að þar er aðeins stigið eitt örlítið skref til að létta af ákvæðum laga um að þeir sem vilja stunda framleiðslu eða innflutning á áfengi verði að fá til þess sérstakt leyfi yfirvalda. Þetta er leyfi sem hinn almenni maður fær ekki, enda laumast hann gjarna við að framleiða vínið þar sem enginn sér til eða flytja það inn svo enginn frétti af. Hvers vegna ekki að aflétta öllum þeim hömlum sem kveðið er á um í áfengislögunum og leyfa fólki að ákveða fyrir sig hvað það vill framleiða eða flytja inn? Nei, bíðum við, nú er þetta bara komið út í eitthvert frelsishjal og engin skerðing orðin eftir á frelsi einstaklingsins. Það getur auðvitað aldrei gengið.