„Anti-globalism has been aptly described as a secular religion. So is Marxism: a creed complete with prophet, sacred texts and the promise of a heaven shrouded in mystery. Marx was not a scientist, as he claimed. He founded a faith. The economic and political systems he inspired are dead or dying. But his religion is a broad church, and lives on.“ |
– Marx after communism. The Economist. 19. desember 2002 |
Karl Marx, kenningar hans og áhrif eru til umfjöllunar í nýjasta tölublaði The Economist. Þar er vakin athygli á því að þrátt fyrir þær hörmungar sem veröldin hefur þurft að þola vegna misheppnaðra tilrauna til að hrinda kenningum Marx í framkvæmd, eru áhrif hans enn mikil. Tilraunirnar hafa verið gerðar í fjölda ríkja um allan heim og alls staðar með sömu afleiðingunum, en samt er því haldið fram í alvöru að þetta sé ekki kenningunum að kenna – og þaðan af síður kennimanninum sjálfum – þetta sé vegna þess að framkvæmdin var röng, tímasetningin ekki rétt eða eitthvað annað sem menn vilja hengja sig í. The Economist bendir á að Marx hafi aðallega litið á sjálfan sig sem hagfræðing þó hann hafi einnig fjallað um aðra hluti. Hann hafi að þessu leyti í raun verið sambærilegur við Adam Smith, en munurinn sé þó sá að segja megi að markaðshagkerfi heimsins – það er að segja þau hagkerfi sem hafa heppnast þokkalega – hafi stuðst við kenningar Smiths á svipaðan hátt og sósíalísku hagkerfin byggðust á kenningum Marx. Þrátt fyrir þetta séu margfalt fleiri bækur gefnar út um Marx en Smith og í háskólum sé Marx enn mikið lesinn og þar hafi Smith aðeins forskot í hagfræðideildunum sjálfum. The Economist nefnir einnig nokkra höfunda sem nýlega hafa gefið út bækur þar sem fjallað er um að Marx hafi haft mikið til síns máls og í raun verið misskilinn. Einn þessara manna sé hinn þekkti sagnfræðingur Eric Hobsbawm, sem alla tíð hafi verið marxisti og félagi í kommúnistaflokknum á meðan sá flokkur lifði. Hobsbawm lýsi því í nýlegum endurminningum að Marx hafi verið misskilinn og að hann hafi haft rétt fyrir sér um mun fleira en almennt sé viðurkennt.
Það er út af fyrir sig undarlegt hve margir hafa mikla þörf fyrir að halda slíkum kenningum á loft, að Marx hafi nú í raun hitt naglann á höfuðið þó öllum sem fylgdu forskrift hans hafi mistekist. En þá segja sumir að byltingarmenn sósíalismans hafi ekki fylgt kenningunum. Stundum er tekið sem dæmi að Rússland hafi ekki verið á réttu stigi í efnahagsþróuninni þegar byltingin var gerð. Rússland hafi verið of frumstætt og hinn illi kapítalismi hafi ekki náð fullum þroska. Þess vegna, en ekki vegna þess að kenningarnar ganga ekki upp, hafi byltingin misheppnast þar. Þó er það svo, eins og fram kemur í fyrrnefndri grein í The Economist, að Marx hvatti sjálfur til þessarar byltingar. Í formála að rússnesku þýðingu Kommúnistaávarpsins, sem kom út árið 1882, sagði Marx að þrátt fyrir að efnahagskerfið hefði ekki náð fullum kapítalískum þroska „geti Rússland orðið upphafið að þróun kommúnismans“. Þess vegna er engin ástæða til að ætla að Lenín hafi farið of geyst miðað við vilja meistarans, hann fylgdi kenningunni og því fór sem fór.
The Economist hafnar algerlega þeirri kenningu að þrátt fyrir allt hafi Marx um margt haft lög að mæla, og segir þvert á móti að allar helstu kenningar hans hafi reynst rangar og spádómarnir um framvindu sögunnar hafi ekki gengið eftir. Þá er bent á að rauði þráðurinn í kenningum Marx hafi verið stéttarátökin, en að hafi þau einhvern tímann verið til séu þau að minnsta kosti að baki. „Í vestrænum lýðræðisríkjum í dag, hver er það sem velur þá sem stjórna og hve lengi þeir stjórna? Hver er það sem segir ríkisstjórnum hvaða reglur eigi að gilda um fyrirtæki? Hver er eigandi fyrirtækjanna? Launamennirnir – alþýðan. Og þetta er vegna þess, en ekki þrátt fyrir það, sem Marx hafði mesta óbeit á; einkaeignarrétti, frjálslyndum stjórnmálaréttindum og markaðnum. Marx hefði ekki getað haft meira rangt fyrir sér um það sem mestu varðaði.“
The Economist telur andstæðinga alþjóðavæðingarinnar, hvort sem þeir eru yfirlýstir marxistar eða ekki, að mörgu leyti ganga fram með svipuðum hætti og Karl Marx og fylgjendur hans. Andstæðingar alþjóðavæðingarinnar gagnrýni hagkerfi heimsins en bjóði ekki upp á neinn annan kost. Þeir tali fyrir útópíu sem sé laus við umhverfisáhrif, félagslegt ranglæti og íþróttavörur með þekktum vörumerkjum. Þeir vilji fara aftur til einhverrar gullaldar sem verið hafi fyrir iðnvæðingu, en sú gullöld hafi þó aldrei verið til.