Fimmtudagur 26. desember 2002

360. tbl. 6. árg.

Hið íslenska bókmenntafélag gaf fyrir skömmu út bókina Frá kreppu til viðreisnar – Þættir um hagstjórn á Íslandi á árunum 1930 til 1960 í ritstjórn Jónasar H. Haralz. Í bókinni eru nokkrar ritgerðir um kreppu- og haftaárin á Íslandi og meðal annars fjallað um hvers vegna höft voru svo lengi við lýði hér á landi þó nálæg lönd hafi gert sér far um að aflétta þeim að lokinni heimsstyrjöldinni síðari, en eins og kunnugt er var höftunum ekki aflétt fyrr en viðreisnarstjórnin, stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, tók við völdum árið 1959 undir forsæti Ólafs Thors. Í bókinni er einnig fjallað um afleiðingar haftanna, gengisfyrirkomulag þessara áratuga, viðhorf Bandaríkjanna til íslenskrar hagstjórnar og fleira fróðlegt.

Síðasta ritgerð bókarinnar fjallar um pólitískar hagsveiflur á Íslandi á árunum 1945 til 1998 og nær því yfir lengra tímabil en hinar ritgerðirnar. Í þessari ritgerð er reynt að heimfæra kenningar um hegðun stjórnmálaflokka og kjósenda á hagsveifluna hér á landi. Skoðaðar eru fjórar stærðir – atvinnuleysi, hagvöxtur, útgjöld ríkisins og verðbólga – og reynt að meta áhrif kosninga og samsetningar ríkisstjórna á þær. Í ritgerðinni eru ríkisstjórnir taldar til hægri ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt aðild að þeim en annars eru þær vinstri stjórnir. Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen, 1980 til 1983, er því talin til vinstri stjórna enda sat hún í andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn þó Gunnar væri sjálfstæðismaður.

Af þeim fjórum stærðum efnahagslífsins sem eru skoðaðar er afgerandi munur milli vinstri og hægri stjórna í tveimur tilvikum en lítill og jafnvel ómarktækur munur í tveimur. Þau tvö atriði sem erfitt er að draga nokkrar ályktanir um eru atvinnuleysi og hagvöxtur. Höfundur ritgerðarinnar, Þórunn Klemensdóttir, telur vart hægt að draga ákveðnar ályktanir af tölum um atvinnuleysi, enda tengist sveiflur í atvinnuleysi einkum sveiflum í sjávarútvegi, en auk þess má nefna að atvinnuleysi var almennt lítið á tímabilinu. Atvinnuleysið er þó meira í tíð hægri en vinstri stjórna, eða 1,19% á móti 0,57%. Þórunn segir að svipaða sögu sé að segja um hagvöxtinn. Hagvöxtur alls tímabilsins sé að meðaltali 4,1%, en lítill munur sé á vinstri og hægri stjórnum, 4,5% í fyrra tilvikinu en 3,9% í því síðara.

Þegar kemur að verðbólgu og útgjöldum ríkisins horfir málið allt öðru vísi við og áberandi munur er á frammistöðu hægri og vinstri stjórna á þessa tvo mælikvarða. Meðalverðbólga tímabilsins er 17,5%, í tíð vinstri stjórna var verðbólgan 24,5% en 15,1% í tíð hægri stjórna. Svipaða sögu er að segja um ríkisútgjöldin. Þau hækkuðu að meðaltali um hvorki meira né minna en 5,5% að raungildi á hverju ári á tímabilinu. Þegar hægri stjórnir sátu við völd var hækkunin 3,3% á ári að meðaltali en 11,2% þegar vinstri stjórnir stýrðu útgjöldunum.

Vitaskuld spilar margt annað inn í en það hvort við stjórnvölinn var hægri stjórn eða vinstri stjórn það ár sem mælt var. Þess vegna er ekki ástæða til að taka mælingarnar það bókstaflega að draga ályktanir út frá litlum mun, jafnvel broti úr prósenti. Þegar munurinn er orðinn jafn mikill og raun ber vitni um verðbólgu og ríkisútgjöld er þó erfitt að hafna því að reynslan sýni að vinstri stjórnum sé mun verr treystandi fyrir ríkisfjármálum og stjórn efnahagsmála en hægri stjórnum.