Margs konar trúarbrögð eru stunduð í heiminum. Sum eru rótgróin og hafa verið iðkuð mann fram af manni um aldir og árþúsund. Önnur skjóta skyndilega upp kollinum en hverfa svo jafnskjótt þegar menn hafa áttað sig á því að þau eru gagnslaus eða jafnvel skaðleg og byggjast á fáu öðru en ranghugmyndum og misskilningi. Það er þó með þessar bólur sem blása út og springa svo með hvelli, að þær styðjast gjarna við kenningar einhvers konar vitringa. Á árum áður voru vitringarnir spámenn og spekingar sem sannfærðu illa upplýstan lýðinn um að heimsendir væri í nánd og tilgreindu hverja þá ástæðu sem hljómaði sannfærandi. Og nú á dögum er þessu því miður ekki mjög ósvipað farið, en nú heita spámennirnir vísindamenn eða menntamenn og láta eins og þeir tali eingöngu út frá fræðilegu hlutleysi um vísindalegar staðreyndir. Vitaskuld eru ekki allir vísindamenn eða menntamenn í þessum hópi – fæstir raunar – en þeir eru engu að síður til sem misnota stöðu sína sem vísindamenn til að bera út furðukenningar um að veröldin sé að farast.
Nýjustu trúarbrögðin af þessu tagi er umhverfisvernartrúin. Hún lifir um þessar mundir góðu lífi meðal ríkari þjóða heimsins vegna þess að spámenn hennar komast upp með að halda fram ýmis konar hæpnum eða jafnvel alröngum fullyrðum um stöðu umhverfismála, þróun þeirra og þátt mannsins í þessari þróun. Og þeim tekst ekki aðeins að halda þessum fullyrðum fram – það er nú út af fyrir sig sjálfsagt að þeir fái að halda vitleysunni fram – en þeir koma þessu vandræðalaust inn í alla helstu fjölmiðla veraldar eins og ekkert sé eðlilegra. Og yfirleitt án þess að stjórnendur fjölmiðlanna sjái minnstu ástæðu til að efast um réttmæti kenninga þessara nýju spámanna og leita álits annarra. Engu virðist skipta þó þessir spámenn hafi ítrekað haft rangt fyrir sér, jafnvel áratugum saman. Menn sem urðu uppvísir að því fyrir rúmum þremur áratugum að halda því fram að næsta áratuginn myndi baráttan við að brauðfæða heiminn tapast, að þá yrði allt of margt fólk á jörðinni til að hægt væri að fæða það, þeir eru enn á stjái og dúkka meira að segja upp í íslenskum fjölmiðlum með undarlegar kenningar sínar.
Sumir sjá fátt annað en vandamál þegar nýtt barn kemur í heiminn. |
Vinsælir spámenn umhverfisverndartrúarinnar hafa til dæmis haldið því fram að fólksfjöldi á jörðinni yrði mikið vandamál á þessari öld. Í bókinni Global Warming and Other Eco-Myths, sem kom út fyrr á þessu ári, er kafli eftir dr. Nicholas Eberstadt, sem er sérfræðingur á sviði mannfjölda og fólksfjölgunar. Í bókarkaflanum bendir hann á margt athyglisvert í sambandi við fólksfjölgun, meðal annars að frá árinu 1960 til áranna 1995-2000 hafi fjöldi fæddra barna á hverja konu í heiminum dregist saman um nær helming, úr 5 börnum í 2,7 börn. Hin hraða fólksfjölgun sem orðið hafi á tuttugustu öldinni hafi ekki orðið vegna aukinna fæðinga heldur vegna þess að dauðsföllum, ekki síst barnadauða, snarfækkaði. Ef fólksfjölgun síðustu aldar var vandamál hlýtur hún þess vegna að hafa verið heilbrigðis„vandamál“.
Í bókarkafla Eberstadt er bent á að ýmsir hafi haldið því fram að fólksfjöldi á jörðinni stefndi í 11 til 14 milljarða á þessari öld og í kringum þetta hefur verið búinn til mikill hræðsluáróður. Hinn alræmdi ekki-forsetaframbjóðandi Al Gore er einn þeirra sem haldið hefur fram hærri tölunni og ætlað að skora pólitísk stig með þeim málflutningi. Eberstadt segir að í seinni tíð sé tóninn í þeim sem rannsaki og fjalli um fólksfjölda tekinn að breytast. Því til staðfestingar nefnir hann að mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNPD, hafi í mars á þessu ári sent frá sér uppfærða skýrslu með mannfjöldaspám. Haft er eftir forstöðumanni mannfjöldastofnunarinnar í Sunday Times að nú spái stofnunin því að mannfjöldi muni ná hámarki um miðja þessa öld og verða þá 7,5 milljarðar, en hann er nú yfir 6 milljarðar. Eftir miðja öldina muni fólki á jörðinni fara fækkandi.
Þetta eru nú allar hörmungarnar og hryllingurinn. Fólki hefur fjölgað verulega vegna þess að það hefur það betra núna. Það fær meira að borða en áður, sem sjá má þegar kaloríur á mann nú og fyrir nokkrum áratugum eru bornar saman, og það er margfalt líklegra til að lifa af eigin fæðingu og komast á efri ár. Þetta sýnir í hnotskurn það undarlegasta við hin nýju umhverfisverndartrúarbrögð; eftir því sem menn hafa það betra, þeim mun verra þykir spámönnunum ástandið vera.
Vef-Þjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegra jóla.