Mánudagur 23. desember 2002

357. tbl. 6. árg.

A

Buskar takast á.

lger friðun skóga hljómar eins og svo margt annað sem kennt er við umverfisvernd afar vel í fyrstu. Getur nokkuð verið að því að banna skógarhögg og vegagerð í skóglendi? En málstaður umhverfisverndarsinna er oft jafn slæmur og hann hljómar vel.

Í skógareldunum í vesturríkjum Bandaríkjanna í sumar brunnu 7 milljónir ekra af skógi, 21 slökkviliðsmaður lét lífið og yfir 2.000 byggingar urðu eldinum að bráð. Margir þessara elda voru óviðráðanlegir vegna þess hve skógarnir eru orðnir þéttir. Eftir árartuga bann við nýtingu skóganna, þar með talið að grisja þá, hefur hlaðist upp afar góður eldsmatur. Jafnvel skógar sem er augljóst að verði eldi að bráð eftir langvarandi þurrka þurfa að fara í umhverfismat áður en hægt að grisja þá og draga úr hættunni á stórbruna. Slík grisjun er ekki þannig að annað hvert tré sé höggvið heldur er lægri gróðurinn grisjaður, smærri tré, runnar og fallin tré, svo eldur eigi bæði erfiðar með að fara af stað og að breiðast hratt út.

Ríkisstjórn George W. Bush hefur undanfarið reynt að breyta þeim reglum sem gilda um skógarhögg á landi í eigu hins opinbera svo grípa megi til ráðstafana til að koma í veg fyrir skógarelda. Tillögur stjórnarinnar ganga bæði út á að leyfa takmarkaða nýtingu með grisjun og einnig vegagerð til að auðvelda mönnum að ráða niðurlögum skógarelda.

Umhverfisverndarsamtök og grænir þingmenn Demókrata hafa andmælt þessum tillögum á þeirri forsendu að verið sé að opna glufu inn í skógana fyrir timburfyrirtæki og þar með að spilla villtri náttúrunni. Þeir segja að Bush hafi ofmetnast eftir sögulegan kosningasigur Repúblíkana í haust og ætli sér nú að setja aukinn kraft í að spilla umhverfinu með skógarhöggi, námavinnslu og olíuborunum. Þótt þessir aðilar telji sig hafa einkarétt á notkun hugtaka eins og „umverfisvernd“ og „umhverfisvænt“ hefur ríkisstjórnin engu að síður kynnt málið sem lið í því að vernda náttúruna. Í þessu tilviki telur stjórnin sig vera að vernda hana fyrir því að verða eldi að bráð. Það hefur að sjálfsögðu ekki dugað til að sannfæra hina eldheitu umhverfisverndarsinna og þeir hafa þegar kært og klagað í allt og alla en eins og alkunna er fer orðið mestur hluti af starfsemi umhverfisverndarsamtaka fram með upphlaupum í fjölmiðlum og klögumálum í réttarsölum fremur en úti í náttúrunni.

Fyrstu lotunni í lagaþrasinu lauk nýlega með sigri umhverfisverndarmanna – og eldsins.