Vefþjóðviljinn 267. tbl. 18. árg.
Eitt af því sem hrjáir marga þingmenn er skortur á grundvallarsjónarmiðum, en þeim skorti fylgir oft mikil viðkvæmni fyrir þrýstihópum og þeim sem háværir eru í umræðunni hverju sinni.
Síðustu daga hafa þingmenn og ráðherrar rætt alvarlega um að setja sérstök lög sem heimili vegagerð í gegnum Teigsskóg, en þar vilja kjósendur á sunnanverðum Vestfjörðum alveg endilega fá veg, en skógræktarmenn og fuglavinir vilja það alls ekki. Skipulagsstofnun hafnaði á dögunum tillögu vegagerðarinnar um vegstæði í gegnum skóginn, og hefur ekki annað komið fram en að sú niðurstaða sé í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.
Nú geta þingmenn alveg verið á þeirri skoðun að lög um mat á umhverfisáhrifum setji of miklar skorður við mikilvægum framkvæmdum. En þá eiga þeir að segja það og breyta lögunum almennt í samræmi við það. Þeir eiga hins vegar ekki að setja sérstök lög um þennan tiltekna skóg, og segja að þar megi víst leggja veg en svo geti almennu lögin gilt annars staðar. Ef niðurstaða skipulagsstofnunar er á annað borð í samræmi við gildandi lög, þá verður svo að vera. Nema menn ákveði að breyta lögunum og þar með þeim leikreglum sem almennt gilda á þessu sviði. Það geta þingmenn auðvitað gert, en þeir eiga ekki að láta sérreglur gilda í Teigsskógi.
Annað dæmi í þessa veru má lesa um í pistli Eddu Hermannsdóttur blaðamanns á Viðskiptablaðinu. Þar fjallar hún um þá tillögu ríkisstjórnarinnar, til einföldunar á skattkerfinu, að hækka virðisaukaskatt á bækur úr 7% í 12%. Þessu hafi Félag bókagerðarmanna mótmælt, eins og búast hafi mátt við. Það sem hins vegar hafi komið á óvart hafi verið viðbrögð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra, sem hefði brugðist við gagnrýninni með því að segja koma til greina að undanskilja ákveðna flokka, eins og barnabækur og fræðirit, þessari hækkun. Um það segir Edda:
Það er ekki einföldun. Nú sitja rithöfundar heima með sveitt ennið til að skilgreina bækurnar sínar á réttan hátt. Í öðru lagi sagði Illugi að málið væri nú í höndum þingsins. Hvað varð um að ríkisstjórnin sjálf væri nokkuð staðföst og ákveðin með sitt eigið fjárlagafrumvarp þannig að aðrir gætu skilið aðgerðirnar og markmiðið með þeim?
Já, hvernig væri að ríkisstjórnin gæfi ekki alltaf eftir í öllum málum? Þeim fáu sem hún þorir að leggja fram.