Þriðjudagur 23. september 2014

Vefþjóðviljinn 266. tbl. 18. árg.

Skattgreiðendur koma litlum vörnum við í stórsókn íþróttafélaga og stjórnmálamanna gegn þeim.
Skattgreiðendur koma litlum vörnum við í stórsókn íþróttafélaga og stjórnmálamanna gegn þeim.

Íþróttaforystan sækir jafnt og þétt á skattgreiðendur. Nú hafa forsvarsmenn íþróttafélagsins Hauka í Hafnarfirði farið fram á að útsvarsgreiðendur Í Hafnarfirði leggi nýtt gervigras á keppnisvöll félagsins á Ásvöllum. Samkvæmt frétt Ríkisútvarpsins nefna forsvarsmennirnir það sérstaklega í bréfi sínu að Stjarnan í Garðabæ hafi fengið gervigras á sama tíma og Haukarnir, en gervigrasið í Garðabæ hafi verið endurnýjað fyrir tveimur árum.

Jói fékk nammi, ég á líka að fá nammi.

Í Hafnarfirði er innheimt hæsta leyfilegt útsvar. Ef bæjarfulltrúar yrðu spurðir hvort þeir ætli ekki að lækka það, þá myndu þeir eflaust svara að það sé ekki hægt. Það verður því forvitnilegt að fylgjast með því hvort þeir finna peninga til að leggja nýtt gervigras á Haukavöllinn. Samkvæmt fréttinni myndi kostnaður við slíka framkvæmd nema um 75-80 milljónum króna, bæjarsjóður borgar 90% en Haukar heil 10%.

Íþróttaforystan beitir ótal brögðum til að herja peninga út úr skattgreiðendum. Ein aðferðin er að setja „lágmarkskröfur“ um velli og mannvirki svo að lið fái að taka þátt í Íslandsmóti. Blygðunarlaust er þess krafist að sveitarfélögin borgi svo þann kostnað sem hlýst af því að uppfylla „skilyrðin“.

Eitt dæmið um ósvífni íþróttaforystunnar er hvernig hún dreifir landsmótum ungmennafélaganna um landið. Þar er þess oft gætt að velja sveitarfélag þar sem vellir og aðstaða uppfylla ekki „skilyrði landsmótsins“, og svo er þrýst á sveitarfélögin að ráðast nú í miklar framkvæmdir svo að ekki þurfi að hætta við landsmótið. Hvenær ætla stjórnmálamenn að segja að komið sé nóg?

Sveitarfélög sem segjast ekki hafa „efni á“ að lækka útsvarið, verða að hætta að ausa peningum til íþróttaforystunnar.