Mánudagur 22. september 2014

Vefþjóðviljinn 265. tbl. 18. árg.

Brennisteinninn sem Holuhraun hefur sent út í loftið undanfarið samsvarar brennisteinsútblæstri frá bílaflota Íslendinga í milljón ár.
Brennisteinninn sem Holuhraun hefur sent út í loftið undanfarið samsvarar brennisteinsútblæstri frá bílaflota Íslendinga í milljón ár.

Margir hafa áhyggjur af ýmis konar mengun frá farartækjum sem brenna jarðefnaeldsneyti, ekki síst einkabílum. Meðal áhyggjuefna undanfarna áratugi er svonefnt súrt regn. Súrt regn er talið myndast vegna brennisteins í jarðefnaeldsneyti sem sleppur út í andrúmsloftið við bruna þess.

Íslenski bílaflotinn brennir um 250 þúsund tonnum af bensíni og Dieselolíu á ári. Í hverju tonni bílaeldsneytis eru um 8 g brennisteins. Úr bílaflotanum koma því um 2 tonn af brennisteini á ári.

Í viðtali við mbl.is í fyrradag segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur um þá brennisteinsmengun sem stafað hefur úr Holuhrauni undanfarnar vikur:

Það eru einhverjar 2,5 milljónir tonna af brennisteini sem losnað hafa út í andrúmsloftið, það gerir í kringum tuttugu þúsund tonn á dag.

Það tæki bílaflota Íslendinga því yfir milljón ár að spúa frá sér jafn miklum brennisteini og Holuhraun hefur gert á nokkrum vikum.

Það tæki allan bílaflota Vesturlanda sömuleiðis nokkrar aldir að jafna þennan brennisteinsútblástur Holuhrauns.

Eru ekki örugglega allir tilbúnir fyrir „bíllausa daginn“ í dag?