Þriðjudagur 18. júlí 2000

200. tbl. 4. árg.

„Tími „korter fyrir þrjú gæjanna“ heyrir sögunni til og eru þeir orðnir fornminjar frá 20. öldinni,“ er haft eftir Helga Hjörvar, borgarfulltrúa, á Vísi síðastliðinn föstudag. Tilefni þessara orða er að borgarráð, sem Helgi á sæti í, hefur nýlega ákveðið að framlengja tilraun með frjálsan opnunartíma

Nú er ekki gott að vera gæi korter fyrir þrjú
Nú er ekki gott að vera gæi korter fyrir þrjú

skemmtistaða í miðbæ Reykjavíkur. Í frétt Vísis segir ennfremur að Helgi hafi mælt þessi orð í „glettnistón“ og þarf þá enginn að velkjast í vafa um viðhorf borgarfulltrúans til þeirra borgarbúa sem kenndir voru við þennan stundarfjórðung. Auk þess að hafa ákveðið að framlengja tilraun með frjálsan opnunartíma skemmtistaða þá ákvað borgarráð á sama fundi að úthluta ekki fleiri leyfum til reksturs nektardansstaða í miðborginni.

Þessi skoðun borgarfulltrúans, að tími korter fyrir þrjú gæjanna heyri sögunni til er allrar athygli verð. Í fyrsta lagi vegna þess að hún lýtur lögmálum tískunnar um póstmódernískan búning. Þannig erum við ekki einasta handan góðs og ills eða rétts og rangs heldur erum við líka handan korter fyrir þrjú gæjans. Í öðru lagi vegna þess að borgarfulltrúinn hreykir sér af því að skemmtanalíf borgarbúa hafi batnað við það að lúta ekki lengur stjórn hans, a.m.k. ekki í jafnmiklum mæli og áður. Í þriðja lagi vegna þess að þrátt fyrir að korter fyrir þrjú gæinn hafi eingöngu þróast vegna hagstæðra skilyrða sem honum voru búin af stjórnmálamönnum þá var hann næsta meinlaus og í sjálfu sér enginn ástæða til að gera hann brottrækan.

Í stuttu máli er það skoðun borgarfulltrúans að hlutverk hins opinbera sé meðal annars að hlutast til um pörunarmynstur og makaleit á skemmtistöðum og að setja hömlur á skemmtanir sem honum eru ekki þóknanlegar. Skyndikynni og nektardans eru hinsvegar ekki meinsemd miðborgarinnar. Það eru gæjar og píur í stjórnmálum sem korter fyrir kosningar hafa lausn á hvers manns vanda sem síðan er sótt í hvers manns vasa að kosningum loknum sem eru meinsemdin.

Ef fyrir borgarfulltrúanum vakir að bæta ásjónu og innviði miðborgarinnar, þá væri nær að stöðva úthlutun leyfa til reksturs opinberra stofnana, taka niður myndavélarnar og virða yfir höfuð friðhelgi einkalífsins og frjáls viðskipti einstaklinga.