Mánudagur 17. júlí 2000

199. tbl. 4. árg.

Franskir knattspyrnumenn hafa gefið franska skattkerfinu rauða spjaldið
Franskir knattspyrnumenn hafa gefið franska skattkerfinu rauða spjaldið

On est les champions! – Við erum meistarar! Franska þjóðin hefur svo sannarlega haft tækifæri til að fagna uppá síðkastið. Heimsmeistararnir í fótbolta gerðu sér lítið fyrir og unnu Evrópubikarinn í sömu íþrótt fyrir skömmu og skiljanlega glöddust margir af tilefninu.
Það er þó lakara fyrir Frakka að þeir eru einnig meistarar í skattheimtu í Evrópu. Nú vinnur meðal-Frakkinn frá áramótum til 12. júlí fyrir hið opinbera á hverju ári, en skattheimtan er um 53,2% af vergri landsframleiðslu. Meðaltalið í Evrópu er hins vegar „aðeins“ 40,3%.

Mörgum finnst nóg um og Benoît Taffin, sem er átta barna móðir og borgarstjóri II. hverfis í Parísarborg hefur stofnað samtök skattgreiðenda. Þau samtök hafa tekið uppá því að fagna „skattadeginum“ og munar litlu að sá dagur falli upp á sjálfan Bastilludaginn.
Á það hefur reyndar verið bent í þessu samhengi að nánast allir „meistararnir“ spila utan Frakklands og ástæðan er einfaldlega sú að skattarnir eru of háir í Frakklandi. Aðstandendur franskra fótboltaliða hafa að sjálfsögðu borið sig illa og telja sig ekki sitja við sama borð og kollegar þeirra í öðrum Evrópulöndum. Stjórnmálamennirnir eru auðvitað sjálfir sér líkir. Sem dæmi má nefna að bæði fjármálaráðherrann Laurent Fabius og hægri maðurinn Alain Juppé hafa lagt áherslu á að „tekið verði á málinu“.

Samtök skattgreiðenda benda auðvitað á að ekki þurfi að koma til „sérstakar aðgerðir“ heldur nægi, a.m.k. í bili, að franska ríkið taki upp sams konar skattareglur og gildi í öðrum Evrópulöndum – um meira er ekki beðið nú. Slíkt mundi koma í veg fyrir að frönsk fótboltalið þurfi að horfa á eftir öllum bestu leikmönnunum um leið og lagt hefur verið í kostnað og fyrirhöfn við þjálfun þeirra.

Þegar fjallað er um skatta koma upp í hugann orð sem framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda lét falla í morgunsjónvarpi í síðustu viku. Hann var að fjalla um hækkun tryggingaiðgjalda og taldi að nú væri kominn tími til að ríkisvaldið og stofnanir þess gripu inn í. „Stærsti hagsmunaaðili neytenda er ríkið sjálft,“ eins og hann orðaði það, og var greinilega þeirrar skoðunar að ríkið væri sérstaklega í því hlutverki að gæta hagsmuna neytenda. Þegar horft er til þess að neytendur greiða ríkinu um það bil 60-70 krónur í hvert sinn sem þeir eyða 100 krónum í bensín eða bíl, er þessi staðhæfing framkvæmdastjóra hagsmunafélags bifreiðaeigenda heldur furðuleg. Ríkið hirðir fé af neytendum í hvert sinn sem þeir taka upp veskið til að kaupa sér nauðsynjar og bannar þeim auk þess að kaupa margt það sem þeir vilja og samt kemst sú sérkennilega hugmynd í loftið að ríkið gæti hagsmuna þeirra.