Miðvikudagur 19. júlí 2000

201. tbl. 4. árg.

Fyrir hálfri annarri viku gerði Eiður Guðnason fyrrverandi alþingismaður yfirbót í rabbi í Lesbók Morgunblaðsins. Eiður var þingmaður Alþýðuflokksins þegar greidd voru atkvæði á Alþingi um það hvort einkaaðilum skyldi leyft að stunda hljóð- og sjónvarpsrekstur á Íslandi. Þá greiddi þingmaðurinn atkvæði gegn frjálsu útvarpi og skýldi sér á bak við tæknilegar flækjur til að verja afstöðu sína í þessu grundvallarmáli. Nú hefur Eiður hins vegar fengið nóg af Ríkissjónvarpinu og telur það hafa sagt skilið við sig. Skýringin er að hann telur það hafa brugðist þegar jarðskjálftinn stóri reið yfir og að það dekri við íþróttir á meðan annað sitji á hakanum.

Sinnaskipti þessa fyrrum eins helsta stuðningsmanns ríkisfjölmiðlunar eru vissulega ánægjuleg. Og gott er að Eiður – og raunar fleiri sem verið hafa sömu skoðunar – hefur séð að einkafjölmiðlar leggja sig meira fram um að þjóna neytendum sínum en ríkisfjölmiðlar. Þetta var svo sem augljóst án þess að á það þyrfti að reyna, því einkareknum fjölmiðlum eru neytendur nauðsynlegir, en það er þó gott að menn skuli ekki þrjóskast við og halda endalaust í kreddurnar.

Líklegt er að ef menntamálaráðherra legði fram tillögur á næstunni um að breyta til hjá RÚV og selja fyrirtækið, þá féllu þær í góðan jarðveg. Flestir hafa áttað sig á að hér á landi geta vel þrifist fjölmiðlar án þátttöku ríkisins. Það er miklu nær að halda því fram að ríkið þvælist fyrir og kæfi frumkvæði á þessum markaði en að það geri gagn. Ríkið neyðir menn til að greiða afnotagjöld til  miðils sem þeir kæra sig ekkert endilega um að nota (hann er ekki meira spennandi en svo að starfsmenn hans brjóta frekar lög en greiða fyrir afnot af honum) og tekur auk þess til sín stóran hluta auglýsingamarkaðarins, sem annars færi til einkastöðva. Nú þegar eru – þrátt fyrir að ríkið sé fyrir á markaðnum – að minnsta kosti tvær sjónvarpsstöðvar og fjöldi hljóðvarpsstöðva í alvarlegri samkeppni við stöðvar ríkisins.