Fimmtudagur 20. júlí 2000

202. tbl. 4. árg.

„Að fenginni reynslu eftir Sleipnisverkfallið tel ég nauðsynlegt að skoða það skipulag sem verið hefur í gildi um skiptingu leigubílaaksturs í atvinnusvæði,“ sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra í DV í gær. Ástæða er til að fagna þessum ummælum, svo langt sem þau ná en þau

Leigubílar anna ekki alltaf eftirspurn...
Leigubílar anna ekki alltaf eftirspurn…

kunna að marka upphaf gagngerra breytinga á skipulagi leiguaksturs í landinu. Eins og menn vita þá eru umfangsmiklar takmarkanir settar við frelsi borgaranna til að keyra hvern annan gegn gjaldi. Bæði eru leyfi til leiguaksturs fá og bundin við landsvæði.

Leigubílafjöldi er sem sagt takmarkaður og samkvæmt lögum skal hann „ákveðinn í samráði við sveitarstjórnir, héraðsnefndir og félög bifreiðarstjóra“. Löggjafinn hefur litið svo á, að þetta sé nauðsynlegt til þess að leigubílar bjóðist jafnt á álagstímum sem og þegar lítið er að gera. Fái hver sem vill að keyra á þeim tíma sem flesta vantar bíl, verði það til þess að næstum engir fáist til að keyra á öðrum tímum. Þó í þessu kunni að vera sannleikskorn þá er engu að síður óskandi að samgönguráðherra taki einnig

...og stundum endar það með ósköpum.
…og stundum endar það með ósköpum.

þetta atriði til endurskoðunar. Að ráðherrann velti fyrir sér hvort rétt sé að banna Ara að borga Bjarna fyrir akstur á laugardagskvöldi með þeim rökum að annars geti Daníel ekki lifað á því að keyra Eggert í miðri viku.

Þó samgönguráðherra hafi ekki haft uppi nein orð um að rétt sé að gefa leigubifreiðarakstur frjálsan þá mega menn ef til vill gera sér vonir um að hann muni hlutast til um að bílstjórum verði leyft færa sig milli svæða. Ætla má að slík breyting yrði til þess að bílstjórar, sem nú starfa á svæðum þar sem fáir þurfa bíl færðu sig þangað sem bílstjóra er þörf. Að minnsta kosti er Ástgeir Þorsteinsson, formaður bifreiðastjórafélagsins Frama, þeirrar skoðunar, þó hann telji reyndar að slík þróun yrði alls ekki fagnaðarefni. Í DV í gær spáði hann í spilin: „Ef atvinnusvæði Suðurnesja, höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands yrðu sameinuð myndi það einungis hafa í för með sér að leigubílstjórar í Reykjanesbæ myndu flykkjast í bæinn og skilja sín svæði eftir bíllaus. Með svæðaskiptingunni er verið að tryggja fólki framboð á bílum á sem flestum stöðum, enda setjum við viðskiptavininn númer eitt.“

Formaður Frama er sem sagt þeirrar skoðunar, að suður með sjó sitji leigubílstjórar og bíði eftir kúnnum og í Reykjavík sitji kúnnar og bíði eftir bílstjórum. Hann vill bara ekki að þessir hópar fái að hittast.