Jafnvel hörðustu jafnaðarmönnum kemur lítt til hugar að halda því fram að Kína nálgist það að vera paradís á jörð. Landið er hræðilega fátækt og stjórnvöld skirrast ekki við að brjóta mannréttindi og stinga fólki í fangelsi fyrir skoðanir þess. Það er kannski ennþá hræðilega til þess að hugsa að fyrir sumum kemur Kína engu að síður fyrir sjónir sem sæluríki. Þeir sem þannig líta á málið eru u.þ.b. 100.000 Norður-Kóreumenn sem hafa flúið yfir landamærin á síðustu árum. Í Norður-Kóreu hefur jafnaðarstefnu verið fylgt út í æsar og afleiðingarnar eru hungursneyð og ógnarstjórn. Hvergi í heiminum er ástand borgaranna jafn slæmt og í Norður-Kóreu. Kim Jong Il hefur nú fengið titilinn Hinn mikli leiðtogi sem hann erfði eftir föður sinn líkt og hann fékk stjórn landsins að erfðum í þessu landi þar sem fólkið ræður og vilji þjóðarinnar er í hávegum hafður. Einn hræðilegasti bletturinn á allri þessari sorgarsögu er sá að hinum almenna borgara í landinu er talin trú um að ástandið sé síst betra í öðrum löndum. Flestir þeirra sem flúið hafa landið eru fyrrverandi háttsettir embættismenn eða aðrir úr æðri stéttum þessa stéttlausa lands. Hinir sem eftir sitja bera ekki einu sinni von í brjósti um að til sé eitthvað sem heiti mannsæmandi líf.
Evrópusambandið boðar nú að bílaframleiðendum verði skylt að auglýsa bensíneyðslu bíla þegar þeir auglýsa á annað borð. Þá verður skylt að taka það fram í auaglýsingum að koldíoxíð valdi gróðurhúsaáhrifum og beri meginábyrgð á hlýnun andrúmsloftsins. Er þetta í ætt við annað sem kemur frá skifffinnunum í Brussel en þeir telja sér ekkert mannlegt óviðkomandi og setja þurfi lög og reglur (eða gefa út tilskipanir eins og það heitir á skrif-finnsku) um allt milli himins og jarðar.
Frelsarinn sem tjáir sig á heimasíðu Heimdallar frelsi.is fór nýlega nokkrum orðum um þau lög sem meina Skjá 1 að sjónvarpa þáttum David Lettermans ótextuðum.