Í dag eru 49 ár liðin frá því Alþingi samþykkti ályktun um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, NATO. Óhætt er að fullyrða að fáa daga beri hærra í þingsögunni en 30. mars árið 1949. Kemur þar margt til. Þennan dag tók Alþingi þýðingarmestu ákvörðun sem það hefur tekið í því skyni að tryggja öryggi landsins og aldrei hefur verið barist gegn nokkurri ákvörðun meirihluta Alþingis af meiri heift og ofstæki. Þó er líklegt að dagsins verði ekki hvað síst minnst fyrir þá sök, hve nærri lá við að ofbeldismönnum tækist að taka völdin af Alþingi. Andstæðingar varnarsamstarfsins efndu til útifundar við Austurvöll og þaðan stóð stöðugt grjótkast og síðar aðsúgur mannsafnaðarins á alþingishúsið. Það var einungis með aðstoð varaliðs, sem einkum var skipað Vökuliðum úr Háskólanum, sem lögreglunni tókst að verja alþingishúsið. Þjóðviljinn, sem margir sakna sárt enn í dag, hafði haldið uppi æsingaskrifum gegn þeim sem studdu varnarsamstarfið við Vesturlönd og voru stóryrðin ekki spöruð. Linnulítið voru ráðherrar, og þá einkum forystumenn Sjálfstæðisflokksins, kallaðir landráðamenn, leiguþý, föðurlandssvikarar, Bandaríkjaleppar og svo framvegis. Ólafur Thors var látinn heita „Thórsarafífl“ og þar fram eftir götunum.
Mörgu ungu fólki finnst eflaust að atburðirnir á Austurvelli árið 1949 teljist til fornaldarsögu. Þeir sem eldri eru vita hins vegar vel, hve stutt er síðan vinstri menn börðust opinberlega með oddi og egg gegn varnarsamstarfi Íslendinga við vestrænarlýðræðisþjóðir. Og enn eru í fullu fjöri margir þeirra sem tókust á þennan sögulega dag. Einn þeirra sem þá sat á þingi og greiddi atkvæði gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu situr til dæmis í heiðurssæti á R-listanum við komandi borgarstjórnarkosningar. Þeir atburðir sem hér hafa verið lítillega ræddir eru þannig nær í tíma en margur ætlar. Verður að telja eðlilegt að þeir verði rifjaðir upp æsingalaust svo að nýjar kynslóðir fái af þeim lært.
Málfundafélagið Óðinn, félag sjálfstæðismanna í launþegasamtökum, varð 60 ára á sunnudaginn. Að því tilefni var viðtal við Ívar Andersen formann félagsins í Morgunblaðinu. Þar sagði Ívar m.a.: „Það skiptir ekki síður máli hvað hægt er að fá fyrir launun en krónurnar eru margar. Mér finnst verkalýðshreyfingin t.d algerlega hafa brugðist í mörgum stærstu kjaramálunum en þar á ég að sjálfsögðu við neytendamál og skattamál. Það yrði t.d. gífurleg kjarabót ef innflutningur landbúnaðarvöru yrði gefinn frjáls og og tollar á matvæli lækkaðir eða afnumdir en þetta virðist verkalýðshreyfingin ekki hafa komið auga á. Þá brást verkalýðshreyfingin algerlega þegar R-listinn lagði á holræsaskattinn þvert ofan í gefin loforð.“