Helgarsprokið 29. mars 1998

88. tbl. 2. árg.

Árið 1985 neituðu þingmenn Græningja á vestur-þýska þinginu að nota tölvur þar sem þeir töldu að ekki væri rétt að leysa vandamál með tækni iðnmenningarinnar! Það hefur raunar einkennt boðskap umhverfisverndarsinna fram til þessa að þeir telja allar tækniframfarir umhverfinu til bölvunar. Efnahagslegar framfarir (hagvöxtur) hafa einnig verið eitur í beinum þeirra. Sveitarómantíkin hefur gagntekið umhverfisverndarsinna þótt það standist engan veginn að fólk fyrr á öldum hafi gengið betur um umhverfið en borgarbúar nútímans. Þvert á móti. Fólkið í sveitinni fyrr á öldum hafði umhverfismál aftarlega á óskalistanum. Fremst var dagleg fæðuöflun og viður í ofninn. Dýrastofnar voru ofnýttir og skógar ruddir fyrir akra og í eldinn. Jafnvel frumbyggjar Ameríku, sem umhverfisverndarsinnar hafa tekið í dýrlingatölu, breyttu umhverfi sínu og ofnýttu skóga og dýrastofna.

En ef til vill er andúð umhverfisverndarsinna á borgarbúum, tækninýjungum og efnahagslegum framförum að dvína. Tímaritið Time hefur um árabil túlkað sjónarmið umhverfisverndarsinna og ósjaldan slegið heimsendaspám upp á forsíðu. Í nýlegu tölublaði Time (23. mars) kveður við annan tón. Þar er fjallað nokkuð um nauðsyn þess að nýta tækni til að bæta umgengni okkar við umhverfið. Minnst er á nýjar leiðir til að hreinsa land, láð og lög og bæta eldsneyti þannig að útblástur sé saklausari. En til þess að tækninýjungar í umhverfismálum komi að gagni verða menn að hafa efni á að nota þær.

Í nýju tölublaði The Economist er einmitt ítarleg fréttaskýring um slæmt ástand umhverfismála í mörgum fátækari ríkjum heimsins. Í þessum löndum eru menn enn gagnteknir af daglegri barátta fyrir fæðu og húsaskjóli og geta ekki sinnt því áhugamáli ríka mannsins sem nefnist umhverfisvernd.
Það sem þessi lönd þurfa er meiri hagsæld. Í mörgum þeirra spilar ríkið hins vegar stóra rullu í efnagslífinu og vel meinandi vinstri menn gera sitt besta til að koma í veg fyrir að fólk geti hjálpað sér sjálft. Vesturlönd og ýmis önnur ríki búa við hagsæld vegna frjálslyndrar efnahagsstefnu. Þess vegna höfum við burði til að takast á við umhverfismál. Við hljótum að óska öðrum þjóðum hins sama.