Ágúst Einarsson hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að fyrirtæki geti dregið styrki til menningarstarfsemi tvisvar frá tekjum. Á sama tíma láta aðrir þingmenn Þjóðvaka öllum illum látum yfir því að fyrirtæki dregið umframútgjöld (tap) fyrri ára frá hagnaði ársins og sleppi því við að greiða tekjuskatt.
Skattafrádrátturinn sem Ágúst vill koma á er ekkert annað en styrkur. Þessi styrkur yrði hins vegar betur falinn en aðrir styrkir sem hið opinbera veitir enda veittur í gegnum annan aðila. (Þessi aðferð, að velta fé um lögmæt fyrirtæki til að fela það, er raunar þekkt úr skipulagðri glæpastefsemi og nefnist þá peningaþvottur.) Hvað sem segja má um þá styrki sem hið opinbera veitir til menningarstarfsemi í dag þá eru þeir að minnsta kosti sýnilegir en ef frumvarp Ágústs verður að lögum verða þeir það ekki.
Á ríkisstyrkjum (bæði beinum styrkjum og „styrkjaþvottinum“) til menningarstarfsemi er líka annar galli. Hvað er „menningarstarfsemi“? Vafalaust telur Ágúst sig geta ákveðið hvað er menning og hvað ekki. En ætli álit hans fari saman við menningarsmekk annarra? Er útgáfa Vef-Þjóðviljans t.d. menningarstarfsemi? Listdansinn á Óðali? Stangarstökk? Hið listilega flokkaflakk Ágúst Einarssonar? Útihátíðir um Verslunarmannahelgar? Skógrækt?Svona mætti lengi telja.
Við þetta er svo því að bæta að Ágúst Einarsson er ekki alveg laus við að eiga hlut í fyritækjum. En það ræður auðvitað engu um að hann leggur fram frumvarp um að fyrirtækjaeigendur fái sérstök völd með skattaívilnunum til að ákveða hvaða menningarstarfsemi fær styrki.
Í Vísbendingu er fastur dálkur sem nefnist Aðrir sálmar. Þar er oft skotið föstum skotum. Í Vísbendingu vikunnar var þetta skot: „Það vaktri athygli þegar viðskiptaráðherra skipaði lítt þekktan starfsmann Vátryggingafélags Íslands sem formann bankaráðs Landsbanka Íslands. Eðlilega spurðu menn hver væri reynsla hans af fjármálastarfsemi og fengust þá þau svör að hann hefði annast fjársöfnun fyrir Framsóknarflokkinn. Þetta gefur til kynna hvaða hæfileikum viðskiptaráðherra telur að bankaráðsformaður skuli vera gæddur.“
Það er annars merkilegt í umræðum um bankana að ýmsir stjórnmálamenn hafa séð ástæðu til að lýsa óskum sínum um það hvaða bankar eigi að sameinast. Jóhann Ársælsson vill sameina þessa banka og Guðni Ágústsson hina. Nú hefur fengist nokkuð víðtæk reynsla af því að pólítíksar skipuleggi atvinnurekstur. Ekki hafa borist miklar fréttir af því að vel hafi tekist til í þeim efnum. Íslenskir stjónrmálamenn halda hins vegar áfram að reyna og er engu líkara að þeir trúi því að þeir geti orðið fyrstir til að láta sósíalismann ganga upp.
Vert er að benda áhugamönnum um kenninguna um aukin gróðuhúsaáhrif á grein eftir Trausta Jónsson, veðurfræðing, í Lesbók Morgunblaðsins á laugardaginn var. Þar fjallar Trausti um hlýnun hér á landi samanborið við hlýnun á norðurhvelinu öllu