Miðvikudagur 1. apríl 1998

91. tbl. 2. árg.

Grey utanríkisráðherra. Eftir því sem hann segir eru útgjöld utanríkisráðuneytisins „aðeins 2% af útgjöldum ríkisins“. Þetta er algjör niðurlæging fyrir formann Framsóknarflokksins. Hann skipaði því nefnd á dögunum sem í gær skilaði tillögum um hvernig „efla megi utanríkisþjónustuna“ sem á mannamáli þýðir hvernig auka megi hlut utanríkisráðuneytisins í eyðslu hins opinbera. Það verður best gert að mati nefndarinnar með því að stofna þrjú ný sendiráð. Alls tókst nefndinni að gera tillögur um aukin útgjöld upp á 300 milljónir króna. Jafnvel stjórnarandstæðingnum Margréti Frímannsdóttur þótti nóg um þessar tillögur á þingi í gær og eru stjórnarandstæðingar þó sjaldan framarlega í flokki þegar andmæla þarf  útþenslu ríkisbáknsins.

Nú er bara að bíða og sjá hvað sjávarútvegsráðherrann gerir en hann er undir 2% markinu. Viðskiptaráðherrann, flokksbróðir utanríkisráðherrans, nær ekki einu sinni 1% og má heldur betur taka sig á ef hann ætlar ekki að verða að athlægi í Framsóknarflokknum.
Við þetta má svo bæta að við sem kusum Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta í þeirri trú að víðtækur kunningsskapur hans við einræðisherra víða um heim myndi gera utanríkisþjónustuna nær óþarfa höfum nokkrrar áhyggjur af vantrausti utanríkisráðherrans á störfum „superambasssadorsins“.

Draumaríki jafnaðarmanna, Svíþjóð, getur ekki með sama hætti státað af því að vera draumaríki atvinnulífsins. Fréttir berast nú þaðan um að flótti sé að bresta í lið stórfyrirtækja og er ástæðan háir skattar velferðarríkisins. Þar er bæði um að ræða háa skatta á fyrirtækin sjálf og á starfsmenn þeirra, en framkvæmdastjórar greiða yfirleitt 68% tekjuskatt. Ein af þeim „lausnum” sem sænskir stjórnmálaforingjar jafnaðarmanna hafa nefnt er að veita útlendingum, sem vinna um stundarsakir í Svíþjóð, sérkjör á sköttum. Þetta á að koma í veg fyrir fyrirtækjaflótta og þar með aukið atvinnuleysi. Heppilegra væri þó vitaskuld að lækka skatta í Svíþjóð þannig að landið yrði samkeppnishæft við önnur ríki.

DV, Dagur og Viðskiptablaðið opnuðu í nótt nýjan vef undir nafninu gamalkunnu nafni, Vísir. Vef-Þjóðviljinn býður Vísi velkominn á Netið.