Á undanförnum árum hafa opinber afskipti af atvinnulífinu…
dregist saman og í sífellt fleiri atvinnugreinum má nú segja að frjálsræði sé aðalreglan en bönn og höft undantekningin. Þetta verður því miður ekki sagt um íslenskan landbúnað, enda býr hann enn við opinberar styrkveitingar, verðlagshöft, samkeppnishömlur og innflutningstakmarkanir. Almennt bann við innflutningi landbúnaðarvara hefur að vísu verið afnumið, en enn er þó innflutningur ýmissa afurða, svo sem danskra kjötvara, bannaður ,,af heilbrigðisástæðum“. Nokkrir þingmenn Alþýðuflokks og Þjóðvaka hafa vakið athygli á þessum furðulega rökstuðningi fyrir banninu með því að leggja fram fyrirspurn á Alþingi til landbúnaðarráðherra. Hann er m.a. spurður hvort hann telji þetta bann standast ákvæði GATT-samningsins um afnám viðskiptahindrana, hvort og þá hvað bendi til þess að danskar kjötvörur séu hættulegar íslenskum landbúnaði, Íslendingum eða neytendum af öðru þjóðerni, og loks til hvaða ráðstafana ráðherra telji rétt að grípa til að vernda íslenska ferðamenn í Danmörku og íslenska ríkisborgara þar í landi, ef rétt sé að gæta þurfi sérstakrar varúðar gagnvart dönskum landbúnaðarafurðum. Með síðustu spurningunni er auðvitað vakin sérstök ástæða á fáránleika núverandi reglna, og verður fróðlegt að heyra svör landbúnaðarráðherra við henni.
Finnur Ingólfsson viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi…
þrjú frumvörp sem fela í sér verulegar breytingar á fjármálakerfinu hér á landi. Lagt er til að ríkisviðskiptabönkunum verði breytt í hlutafélög og einkaaðilum verði heimilað að koma að rekstri þeirra, að fjárfestingarlánasjóðir hins opinbera verði sameinaðir og breytt í hlutafélag og loks að stofnaður verði sérstakur ,,nýsköpunarsjóður” til eflingar íslensku atvinnulífi. Í þessum frumvörpum er alls ekki gengið nægilega langt í átt til einkavæðingar og frjálsræðis, enda eiga einkaaðilar aðeins að geta eignast 35% í ríkisviðskiptabönkunum og 49% í nýja fjárfestingabankanum skv. frumvörpunum. Verstu mistök viðskiptaráðherra virðast þó liggja í frumvarpinu um nýsköpunarsjóðinn, enda virðist hann byggja á löngu úreltri hugmyndafræði um afskipti ríkisins af atvinnulífinu. Sjóður þessi á að hafa það hlutverk að styðja fjárfestingarverkefni á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar og kynningarverkefni. Hann á að geta veitt lán, ábyrgðir og styrki til slíkra verkefna eða leggja fram hlutafé. Með þessu móti er umræddri ríkisstofnun veitt víðtækt umboð til að koma með beinum og óbeinum hætti að atvinnurekstri á tímum þar sem slíkum afskiptum hefur almennt verið hafnað vegna slæmrar reynslu. Í besta fallið byggir frumvarpið á þeirri hugmynd, að stjórnmálamenn og pólitískt skipaðir ríkisforstjórar séu betur til þess fallnir en atvinnurekendur, fjárfestar og forsvarsmenn almennra lánastofnana til að meta, hvaða verkefni sé arðvænleg og hver ekki, en í versta falli er hér um að ræða afar framsóknarlega tilraun til að tryggja að tilteknir stjórnmálamenn og gæðingar þeirra hafi áfram úthlutunarvald, sem geri þeim kleift að veita fjármunum almennings til útvalinna gæluverkefna.