Föstudagur 28. mars 1997

87. tbl. 1. árg.

Segja má að Evrópusambandið hafi orðið fertugt í vikunni, eða hinn 25. mars.
Nánar tiltekið eru fjögurtíu ár liðin frá undirritun Rómarsáttmálans, stofnsamnings Efnahagsbandalags Evrópu. Þegar litið er til baka á þessum tímamótum verður því ekki neitað að margt er líkt með sögu ESB og hinu sígilda ævintýri Göthes, Der Zauberlehrling (til mun vera Disney-útgáfa undir nafninu Sorcerer’s Apprentice í kvikmynd sem heitir Fantasia). Rétt eins og hinn ungi seiðkarlslærlingur í ævintýrinu, þá hófu leiðtogar hinna sex stofnríkja ESB samstarf sitt í göfugum tilgangi. Efnahagsbandalaginu skyldi ætlað að treysta frið til frambúðar í Evrópu og ein leiðin að því markmiði var efling frjálsra viðskipta milli aðildarríkjanna. Með síðari breytingum hefur þetta samstarf skilað af sér 370 milljóna manna innri markaði í 15 ríkjum, auk Íslands og hinna EES-ríkjanna. Markmiðið um frið í álfunni hefur einnig að mestu staðist. Í ævintýri Göthes réð lærlingur seiðkarlsins ekki við þann galdur sem hann efldi. Á sama hátt má segja að hið sterka EBE, sem á sínum tíma var ánafnað yfirþjóðlegu valdi til að knýja fram frjálsa flutninga vöru, þjónustu, fjármagns og vinnuafls, hafi nú misst tökin á þeirri þróun sem það sjálft hratt af stað. Evrópusambandið er fórnarlamb skrifræðisins sem fylgt hefur reglugerðum þeim, sem sambandið hefur sett til að jafna allan hugsanlegan aðstöðumun milli atvinnustarfsemi í aðildarríkjum sambandsins. ESB setur nú orðið reglugerðir um flest svið mannlegrar háttsemi, undir þeim formerkjum að verið sé að auka hagsæld íbúa Evrópu. Hörmulegar afleiðingar þessa blasa nú þegar við. Til dæmis eykst atvinnuleysi jafnt og þétt í álfunni, enda sjá evrópsk fyrirtæki ekki fram úr reglugerðarskóginum til að fjölga störfum, á meðan störfum fjölgar t.d. í Asíu og Ameríku. Ævintýri Göthes um lærlinginn lýkur á því að meistari hans kemur heim í tæka tíð til að afstýra voða. Vonandi tekst að hemja þá sjálfala skepnu, sem Evrópusambandið er orðið að, áður en það verður um seinan.

Ritstjórar Alþýðublaðsins, fyrrverandi og núverandi, …
hafa undanfarið farið mikinn í gagnrýni á lögregluyfirvöld vegna meints getuleysis þeirra í baráttu gegn verslun með tiltekin fíkniefni. Fyrst sló Hrafn Jökulsson, fyrrverandi ritstjóri Alþýðublaðisins, sjálfan sig til riddara með tilfinningaþrungnum skrifum í það blað sem hann nú ritstýrir, Mannlíf, um meintan fíkniefnasala (þó ekki ÁTVR) og meint tengsl hans við nafngreinda lögreglumenn. Í Alþýðublaðinu í gær fylgir núverandi ritstjóri þess, Össur Skarphéðinsson líffræðingur, í kjölfarið með þriðju gráðu yfirheyrslu yfir lögreglustjóranum í Reykjavík. Að auki hefur nýlega farið fram á Alþingi umræða um fíkniefnadeild lögreglunnar, en í þeirri umræðu sparaði margur stjórnarandstæðingurinn ekki stóru orðin í garð starfsmanna deildarinnar. Í allri þessari gagnrýni hefur mest borið annars vegar á ásökunum um að ekki sé tekið nægilega hart á fíkniefnasölum og hins vegar að lögreglan fari offari í störfum sínum. Þessu forræðishyggjufólki virðist öllu fyrirmunað að greina þá bláköldu staðreynd sem blasir við þeim sem ætlað er að heyja stríð gegn fíkniefnum: Það stríð var háð fyrir löngu síðan – og tapaðist. Íslendingar reyndu, líkt og margar aðrar þjóðir, að banna verslun með fíkniefnið áfengi snemma á þessari öld. Reynslan af þeirri tilraun var ömurleg: Áfengissmygl stórjókst með tilheyrandi spillingu og heimabruggun varð að heimilisiðnaði, með meðfylgjandi skorti á hreinlæti. Á síðustu árum þessarar sömu aldar hefur löggjafarsamkundan við Austurvöll falið lögregluyfirvöldum landsins sama vonlausa verkefnið: Að koma í veg fyrir verslun með tiltekin fíkniefni. Vel að merkja ekki áfengi, enda hefur ríkisvaldið sjálft tekið að sér að fullnægja eftirspurn landans eftir því fíkniefni. Eftir að alþingismenn hafa með þessum hætti þvegið hendur sínar af framkvæmd hins vonlausa verkefnis, leyfa þeir sér að gagnrýna þá fyrir dugleysi sem þeir sjálfir settu til að leysa verkefnið, ýmist úr ræðustóli á Alþingi eða úr stóli ritstjóra eina flokksmálgagns landsins. Ekki verða þeir sakaðir um stórmennsku, forræðishyggjusinnarnir. Þeim væri nær að nýta tíma sinn á þingi til að flytja frumvarp þess efnis að fíkniefnaverslun verði sniðinn þannig stakkur, að hægt verði að að ráð niðulögum hinna raunverulegu vandamála sem fylgt hafa fíkniefnasölu – ofbeldisglæpum, fjármögnunarglæpum, óhreinum efnum og neyslu barna.