Vefþjóðviljinn 11. tbl. 20. árg.
Ríkisútvarpið hefur gert margt ósmekklegt undanfarið. Þá er ekki átt við hefðbunda hlutdrægni eða misnotkun eins og þegar starfsmenn þess setjast við hljóðnemann og flytja pólitíska pistla án þess að sjá til þess að önnur viðhorf komi fram til mótvægis.
Í árslok sýndi Ríkisútvarpið til dæmis barnaþátt þar sem ráðist var mjög pólitískt á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Jafnvel barnatímarnir virðast leyfileg verkfæri í Efstaleiti, enda hefur ekki verið beðist afsökunar á þessari notkun barnaþáttarins.
Einnig hefur verið gagnrýnt hvernig Ríkisútvarpið notaði viðtal við Kaupþingsmann sem skemmtiatriði í áramótaskaupi. Það var ekki smekklegt atriði.
En fleira í því skaupi var ósmekklegt. Það var grínið um tvær konur sem samkvæmt fréttum hafa verið í rannsókn vegna meintrar tilraunar til fjárkúgunar. Samkvæmt gríninu er ekki vafi á sekt kvennanna. Í málinu hefur hins vegar ekki enn verið ákært.
Auðvitað er margt í fréttum af þessu hugsanlega fjárkúgunarmáli með miklum ólíkindum og skiljanlegt að höfundar áramótaskaups freistist til þess að nota það í þættinum. En hér á samt í hlut fólk sem er til rannsóknar og þarf á komandi ári hugsanlega að sæta ákæru. Það á ekki að þola að gengið sé út frá sekt þess til skemmtunar í vinsælasta sjónvarpsþætti ársins í Ríkisútvarpinu.
Hvernig var það fyrir fáum árum? Var þá ekki atriði í áramótaskaupi sem sýndi Samherjamenn eða einhverja slíka standa fyrir svindli, sem þá var í rannsókn? Og reyndist vera mikill fótur fyrir því?
En nú er þetta einungis grín, segir einhver. Menn taka ekki áramótaskaupi eins og heimildaþætti. Nei, en því eðli grínsins fylgir líka sú skylda grínarans að kunna sér hóf, einmitt vegna þess að það er varla hægt að svara gríni með rökum. Það er ekki hægt að fara í rökræðu við áramótaskaupið. Það er erfitt að þvo af sér þá mynd sem þar er dregin upp, og þess vegna verður grínistinn að gæta sanngirni.