Vefþjóðviljinn 10. tbl. 20. árg.
Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins ritaði umhugsunarverða grein í Viðskiptablaðið sem kom út á fimmtudaginn. Þar leggur hann út af samkomulagi sem gert hefur verið um jöfnun á lífeyrisrétti opinberra starfsmanna og þeirra sem starfa á almennum markaði.
Samkvæmt svonefndu SALEK samkomulagi hefur nú náðst sátt um að jafna lífeyrisréttindi milli starfsfólks á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Í því felst að stefnt er að því að lífeyrisiðgjöld á almennum vinnumarkaði hækki um 29% eða úr 12% af launum í 15,5% á þremur árum. Það þýðir að í stað þess að laun starfsmanna hækki um 3,5% hækkar mótframlag launagreiðanda í lífeyrissjóð.
Gunnar bendir hins vegar á að það kunni að vera ofrausn á greiða svo hátt iðgjald í lífeyrissjóð.
Hvað áhrif hefur hækkun skylduiðgjalds í lífeyrissjóð úr 12% í 15,5% af launum? Lífeyrisréttindi munu aukast en benda má á að í mörgum tilvikum getur hækkun iðgjalda leitt til þess að eftirlaun verði á mörkum þess að vera of mikil. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem fær laun í takt við almenna launaþróun, eins og lesa má úr skattframtölum, og greiðir 15,5% lífeyrisiðgjald á aldrinum 25 til 66 ára eða í 42 ár ávinnur sér rétt á ævilöngum lífeyri sem nemur um 91% af lokalaunum og um 89% af meðallaunum.
Gunnar segir að þegar viðbótarlífeyrissparnaði sé svo bætt við (2% framlagi launþega og 2% mótframlag vinnuveitanda) séu greiðslurnar orðnar 19,5% af launum sem gera megi ráð fyrir að veiti lífeyrisrétt upp á 121% af lokalaunum viðkomandi í 15 ár. Með öðrum orðum myndu tekjur hækka við það að fara á eftirlaun!
En á þessu aukna framlagi í lífeyrissjóð væru fleiri hliðarverkanir að mati Gunnars. Ein þeirra er aukin skuldsetning ungs fólks.
Sú aðgerð að hækka skyldulífeyrissparnað í 15,5% af launum verður líklega til þess að hvetja einstaklinga til meiri skuldsetningar. Þegar þvingaður lífeyrissparnaður nálgast að vera um fimmtungur af launum leiðir það óhjákvæmilega til þess að þeir sem eru með álíka miklar tekjur og gjöld, sem á við um flest ungt fólk, verða að bjarga sér með því að skuldsetja sig meira til þess að geta eignast húsnæði, m.a. með áform um að greiða af lánum með uppsöfnuðum eftirlaunasparnaði.
Þessi aukni skyldulífeyrissparnaður virðist því geta orðið hálfgerð hringavitleysa. Það getur varla verið jákvætt að skylda fólk til að greiða svo hátt iðgjald í lífeyrissjóð að það þurfi að taka lán hjá sama sjóði til að koma þaki yfir höfuðið.
Gunnar segir svo að lokum að ætli menn sér á annað borð að fara þessa leið ætti hið minnsta að gefa fólki kost á að greiða hið aukna framlag í séreignarsjóð.
Að mörgu leyti má segja að æskilegt sé að hækkun skylduiðgjalds – ef það verður á annað borð ákveðið – verði að öllu leyti ráðstafað til séreignarsparnaðar. Með því móti myndi svigrúm sjóðfélaga við töku lífeyris aukast auk þess sem það er áhættudreifing að því leyti að hluti af lágmarksiðgjaldi myndi þá erfast ef sjóðfélagi fellur frá fyrir aldur fram. Það getur skipt miklu máli, til dæmis ef viðkomandi skuldar við fráfall. Loks má benda á að sjóðfélaginn myndi þá ráða sjálfur hvernig hann ávaxtar séreignarsparnaðinn og velja ávöxtunarleið sem hentar með tilliti til ávöxtunar og áhættuþols.