Vefþjóðviljinn 303. tbl. 19. árg.
Eftir bankahrun urðu ýmsir frasar mjög vinsælir á Íslandi og margir þeirra eru það enn.
Samfélagsleg ábyrgð, er eitt vinsælt hugtakið. Græðgi, græðgisvæðing, eru önnur. Það á að sýna samfélagslega ábyrgð. Það á ekki að sýna græðgi.
Fyrirtæki eru krafin um „samfélagslega ábyrgð“. Sérstaklega stór fyrirtæki.
„Ný kynslóð“ hafnar græðginni og efnishyggjunni. Hún hugsar um samfélagið.
En ef stór fyrirtæki eiga að sýna „samfélagslega ábyrgð“ í stóru, má þá ekki ætlast til þess að einstaklingar gefi gott fordæmi og sýni samfélagslega ábyrgð í smáu? Og af því að stór fyrirtæki mega ekki sýna þá græðgi að reyna að skera niður eigin útgjöld á kostnað samfélagsins, má þá ekki gera ráð fyrir að einstaklingarnir gæti þess sama, þótt í smærri atriðum sé?
Hvernig ætli þeir fari að í daglegu lífi, þessir sem gera mikla kröfu um samfélagslega ábyrgð annarra?
Þegar þeir taka bensín á bílinn þá dæla þeir aldrei sjálfir þótt þannig geti þeir sparað nokkrar krónur. Þeir sýna samfélagslega ábyrgð og tryggja starfsgrundvöll bensínafgreiðslumanna, þótt það kosti eitthvað. Ef þeir eru þá á eigin bíl. Margir þeirra sýna svo mikla samfélagslega ábyrgð að þeir fara flestra sinna ferða í leigubíl og tryggja þannig atvinnu leigubílstjórans. Þeir versla líka aðeins við hefðbundnar leigubílastöðvar þar sem bílstjórarnir hafa aksturinn að aðalstarfi.
Þegar þeir fara til útlanda þá gista þeir á hóteli, sem veitir fjölda manns atvinnu. Þeir myndu aldrei reyna að spara sér gistikostnað með því að skipta á íbúð við ókunnugt fólk.
Þegar þá langar til þess að horfa á bíómynd eða sjónvarpsþátt, þá kaupa þeir sér miða eða leigja myndina. Þeir myndu aldrei taka hana ófrjálsri hendi. Þeir myndu aldrei hlaða niður tónlist nema vera vissir um að höfundur og flytjandi fengi sanngjarna greiðslu fyrir.
Þeir vita að vönduð dagblöð og tímarit skrifa sig ekki sjálf. Þeir eru áskrifendur.
Þeir gera sitt til þess að sá stjórnmálaflokkur, sem þeim stendur næst, sé ekki upp á ríkið og fyrirtæki kominn, og styrkja hann mánaðarlega með föstu framlagi.
Þeir gæta þess að kaupa aldrei vörur sem framleiddar eru í ofbeldislöndum eins og Ísrael eða Kína.
Allt þetta og margt fleira gera þeir sem krefjast samfélagslegrar ábyrgðar af öðrum. Þeir eru ekki bara að hugsa um að skera niður eigin kostnað. Þeir hafa fyrir löngu hafnað græðgisvæðingunni.