Vefþjóðviljinn 302. tbl. 19. árg.
Öðru hverju gerist það að einhver færir fram óvænt en skýr og frambærileg rök gegn einhverju því sem flestir virðast ganga út frá sem óumdeilanlegum sannleika. Slíkt er yfirleitt bæði frískandi og til þess fallið að opna augu og auka skilning, en hvort tveggja er hugsandi manni mikils virði.
Stundum er í opinberum umræðum minnst á 26. grein stjórnarskrárinnar, þá grein sem segir hvað gerist í þeim tilvikum sem forseti Íslands neitar að staðfesta lög frá Alþingi. Áratugum saman voru menn almennt sammála um að þetta ákvæði væri alls ekki virkt og nær útilokað að því yrði beitt. Á síðustu árum eru menn hins vegar farnir að ganga út frá því sem vísu að ákvæðið sé mjög lifandi og að það sé í höndum forseta Íslands persónulega hvenær því sé beitt.
Fyrir áratug var meira að segja byrjað að tala um „málskotsrétt forseta Íslands“ og að forsetinn hefði „málskotsréttinn“, rétt eins og synjunarvaldið sé bara eitthvert málskot.
Fyrir rúmum 20 árum skrifaði Þór Vilhjálmsson mjög athyglisverða grein um túlkun þessarar stjórnarskrárgreinar. Færði hann þar sterk rök fyrir því að synjunarvaldið væri alls ekki í höndum forsetans persónulega, heldur ráðherra. Yfirlýsing forsetans um synjun væri marklaus ef ráðherrann stæði ekki að henni með honum. Stjórnarskráin tekur nefnilega skýrt fram að forseti Íslands sé ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og eins menn vita segir stjórnarskráin einnig að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.
Nú kann auðvitað einhver að hugsa með sér að ekki sé til neins að deila framur um þessi atriði, eftir þrjár synjanir núverandi forseta á lögum sem Alþingi hafði sett. En ef sá skilningur sem Þór setur fram og rökstyður í ritgerð sinni er réttur, þá breytir í raun engu hvernig menn brugðust við í þau skipti. Stjórnarskránni verður ekki breytt með þeim hætti, og ef það er rétt að synjunarvald forseta sé, eins og annað vald sem stjórnarskráin segir að forsetinn fari með, í raun hjá ráðherra en ekki forsetanum persónulega, þá verður því ekki breytt nema með breytingu á stjórnarskrá.
Þór Vilhjálmsson var einn af þekktustu lögfræðingum Íslands á síðari hluta síðustu aldar og var um áratugaskeið dómari við bæði Mannréttindadómstól Evrópu og Hæstarétt Íslands. Þau sjónarmið sem hann setur fram í ritgerð sinni eru vel rökstudd og athyglisverð. Margir þekktir fræðimenn hafa lýst öðrum skilningi á þessu, til dæmis Bjarni Benediktsson, Ólafur Jóhannesson og Sigurður Líndal. Þetta er áhugavert umhugsunarefni, þar sem niðurstaðan er ekki eins augljós og margir halda eflaust.