Vefþjóðviljinn 352. tbl. 18. árg.
Umhverfissinnar hafa lengi haft sannleikann á sínu bandi. Einn þeirra, Kristján Andri Jóhannsson, kynningarfulltrúi Ungra umhverfissinna, skrifaði um skaðasemi umbúða í Fréttablaðið í gær. Hann kaus að láta pakka greininni sinni í pappír og dreifa inn á heimili í stað þess að skrifa bara á netið eða hrópa á götuhorni.
Í mörg horn er að líta þegar kemur að umhverfismálum og allar umbúðir hafa í för með sér einhver umhverfisáhrif. Því má færa rök fyrir að engar umbúðir séu umhverfisvænstu umbúðirnar. Best væri ef við gætum verslað án umbúða. Það er sannleikur sem ekki allir vilja heyra.
Þótt það kunni að vera í mótsögn við hinn algilda sannleik ungra umhverfissinna þá hefur það einnig talsverð áhrif á umhverfið að pakka ýmsum matvælum ekki í umbúðir á borð við plast. Án slíkra umbúða endist matur verr og líklegra er að hann fari til spillis. Því hefur til að mynda verið haldið fram að grænmeti geymist þrisvar til fjórum sinnum lengur í umbúðum en án þeirra.
Engar umbúðir hafa því ýmis áhrif á umhverfið, meiri matur fer á haugana og framleiða þarf meira af honum en ella og flytja til neytenda.