Föstudagur 19. desember 2014

Vefþjóðviljinn 353. tbl. 18. árg.

Spurningalistafræðin eru stundum líkt og útungunarstöðvar kerfisins.
Spurningalistafræðin eru stundum líkt og útungunarstöðvar kerfisins.

Hið opinbera þenst stöðugt út. Starfsmönnum þess fjölgar og verkefni þeirra aukast. Sífellt eru búin til ný og ný svið fyrir hið opinbera. Fleiri og fleiri réttindi eru búin til, sem opinberir starfsmenn sjá svo um að uppfylla.

Þetta er alþjóðlegt vandamál.

Margt skiptir máli við þessa þróun, en hér má nefna tvennt mikilvægt.
Hið opinbera virðist hafa í sér innbyggðan hvata til að viðhalda sér og þenja sig út. Það sogar til sín fólk, sem verður framvegis sannfært um að opinber starfsemi sé sú eðlilega, faglega og sanngjarna, öfugt við græðisvæðinguna og réttindaskortinn í einkafyrirtækjum.

Hið opinbera leggur alls staðar mikla áherslu á nýliðastarfið. Það heldur úti skólum sem kenna ótal nýjar fræðigreinar sem fyrst og fremst eru hugsaðar fyrir væntanlega starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Svonefnd félagsvísindi, þar sem væntanlegir ríkisstarfsmenn stunda miklar rannsóknir með spurningalistum, eru í mörgum tilfellum dæmi um slíkt.

Fleira og fleira er gert að fræðigrein sem síðan er flutt á „háskólastig“, og skyndilega verða til sérfræðingar í alls kyns kynlegum „fræðum“, jafnvel kynjafræðum. Þeir eru í látlausum viðtölum í Ríkisútvarpinu, þar sem er haldið uppi daglegri umræðu um „samfélagsmál“, og allar umræður hljóma eins og þær fari fram á kaffistofunni á skrifstofu BSRB.

Þar finnst aldrei viðmælandi sem telur að minnka eigi opinber útgjöld eða „réttindi“ einhverra gagnvart skattgreiðendum.

Þetta er eitt af því sem þenur út ríkið. Hitt er það ástand að íslenskir hægrimenn reyna ekkert til að sporna við þróuninni. Forysta hægrimanna hefur lítinn vilja og enn minna baráttuþrek til að snúa þróuninni við. Hún efnir aldrei til hugmyndifræðilegrar baráttu við vinstrimenn. Margir ráðherra virðast halda að þeir hafi verið ráðnir í ópólitíska afgreiðslustofnun og þar skipti mestu máli að fá ekki á sig gagnrýni, raða í kringum sig ópólitísku „fagfólki“ og láta starfsfólkið ráða sem mestu. Þeir geta ekki afnumið reglur um kynjakvóta í stjórnum einkafyrirtæka, af því að það gæti orðið umdeilt. En þeir geta barist fyrir náttúrupassa.

Það þarf stórfelldar skattalækkanir, sem minnka vald stjórnmálamanna yfir launaumslagi vinnandi fólks. Það þarf að tala hreint út um að hið opinbera er orðið allt of stórt. Þar þarf að skera verulega niður, en til þess er enginn pólitískur kjarkur, eins og best sást á því að opinber framlög til Ríkisútvarpsins, útvarpsstöðvar BSRB, voru aukin í nýsamþykktum fjárlögum. Það var með ólíkindum að fylgjast með því hvernig það fór fram.