Vefþjóðviljinn 258. tbl. 17. árg.
Vefþjóðviljinn rakst á dögunum á hefti nokkurt um „sjálfbærni“. Þar má finna þessa töflu hér að neðan þar sem lífið og tilveran eru skýrð á aðgengilegan hátt.
Þannig skiptast menn nú í tvo hópa í lífinu. Annars vegar þá sem aðhyllast jarðskjálfta og stríð, klessukeyra bílinn sinn, eyðileggja húsin sín og vanrækja börnin á meðan þeir slafra í sig tilbúinn mat úr álbökkum.Og hins vegar góða fólkið sem sinnir framleiðslu sem er „skitin út“ jafnóðum.
Nú reynir á lesendur. Úr hvaða riti er þessi texti?
a) Fræðsluhefti ungliðahreyfingar albanska kommúnistaflokksins, útgefið í Tírana 1964?
b) Firringu neyslusamfélagsins, útg. Alþýðubandalagið í samvinnu við vinafélag Íslands og Austur-Þýskalands, 1972?
c) Sjálfbærni, þemahefti um grunnþætti menntunar, útgefandi menntamálaráðuneytið 2013?
Já menntamálaráðuneytið gaf fyrir kosningar í vor út sex „þemahefti um grunnþætti menntunar“. Þessi tafla er úr einu þessara hefta. Ráðuneytið telur eftirtalin sex atriði vera grunnþætti menntunar: Læsi í víðum skilningi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun.
Ekki ætlar Vefþjóðviljinn að gera ágreining um fyrsta þáttinn ef „læsi í víðum skilningi“ vísar til þess sem lengi var nefnt lestur. En hvað varð um þætti eins og stærðfræði, raunvísindi, erlend tungumál og jafnvel sögu mannkyns? Þykja þeir ekki lengur grunnur að menntun?
Og hvernig á svo að „innleiða“ hina nýju grunnþætti menntunar? Frá því segir á síðu 6 í ritinu:
Ábyrgð og frumkvæði við innleiðingu grunnþáttanna hvílir á herðum skólastjórnenda í samvinnu við kennara og annað starfsfólk skóla. Þeir gegna forystuhlutverki í samvinnu við sitt fólk við að tryggja að grunnþættirnir endurspeglist í stefnu skólans og starfsháttum. Skapa þarf vettvang fyrir kennara og aðra starfsmenn til að skipuleggja hvernig grunnþáttunum verði best fyrir komið í daglegu starfi. Dæmi um leiðir eru
• leshringir, hópvinna og umræður
• kaffihúsafundir
Já væri ekki gaman að fá svona einn svonefndan starfsdag á hverri önn undir „kaffihúsafund“ þar sem rabbað væri um hvernig megi gera ranghugmyndir úr þemaheftunum sex að grunnþáttum menntunar í landinu?