Laugardagur 14. september 2013

Vefþjóðviljinn 257. tbl. 17. árg.

Fjármálaráðherra skoðar hvort skila megi hluta af skuldsettu sviðsmyndinni í leikhúsi fáránleikans.
Fjármálaráðherra skoðar hvort skila megi hluta af skuldsettu sviðsmyndinni í leikhúsi fáránleikans.

Til að koma í veg fyrir að tap núlifandi Íslendinga af efnahagshruninu haustið 2008 kæmi að fullu í ljós tók ríkissjóður mörg hundruð milljarða að láni í erlendri mynt og kallaði það gjaldeyrisforða. Með þessu lánsfé telja menn að þeir haldi gengi krónunnar uppi, verji þar með kaupmátt hennar og komi um leið í veg fyrir að verðtryggðar skuldir hækki (var einhver að segja að ekkert hefði verið gert fyrir þá sem skulda verðtryggt?). 

Vaxtabyrðin af þessum lánum ríkissjóðs er gríðarleg og mun rýra lífskjör Íslendinga, ekki aðeins núlifandi skattgreiðenda heldur einnig þeirra sem á eftir koma. Þetta er að miklu leyti yfirdráttur á börnin.

Hið nöturlegasta við þetta allt saman er þó að enginn veit hvort þörf var á þessu. Það mun aldrei vitnast hvort krónan hefði jafnað sig fyrir ofan eða neðan það gengi sem Seðlabanki Íslands býður upp á með fulltingi hins skuldsetta gjaldeyrisforða. Í því samhengi er auðvitað rétt að hafa í huga að fátt dregur hraðar úr trausti á gjaldmiðlum en þessi óheillaráð, skuldsettur gjaldeyrisforði og -höft. Og eftir því sem árin líða í þessum sýndarveruleika verður tjónið meira, ekki aðeins af vaxtabyrðinni heldur haftabúskapnum .

Það var því léttir að heyra Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra segja frá því í fréttum í gær að til skoðunar væri að skila gjaldeyrisforðanum til að draga úr vaxtakostnaðinum.