Mánudagur 16. september 2013

Vefþjóðviljinn 259. tbl. 17. árg.

Dr. Andreja Valic Zver heldur fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni í dag kl. 17 um efnið: „Hvers vegna þurfum við að minnast fórnarlambanna?“
Dr. Andreja Valic Zver heldur fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni í dag kl. 17 um efnið: „Hvers vegna þurfum við að minnast fórnarlambanna?“

Undanfarnar vikur hefur verið í Þjóðarbókhlöðunni myndasýning sem nefnist „Heimskommúnisminn og Ísland“, en það er efni sem margir ættu að kynna sér, þekkja og skilja. Kommúnisminn og sú skelfing sem hann hefur leitt yfir hundruð milljóna manna er ekki eins fjarlæg fortíð og margir halda. Ísland hefði getað lent undir hæl kommúnismans og hér á landi voru margir sem unnu að því að svo færi. Og því má ekki gleyma að stór hluti heimsbyggðarinnar lifir enn í kommúnistaríki.

Kommúnisminn svipti fólk ekki aðeins frelsi, lífskjörum og möguleikum. Færð hafa verið sterk rök að því að um eitthundrað milljónir manna hafi beinlínis týnt lífi undir kommúnismanum. Kommúnismanum fylgdi hungursneyð, ofsóknir, aftökur og harðstjórn, en á þessu hafa margir engan áhuga. Og alls ekki áhuga á því að áhrifamiklir samlandar þeirra hafi unnið að því að gera Ísland að kommúnistaríki. 

Í dag klukkan 17 flytur slóvenski sagnfræðingurinn Andreja Valic Zver fyrirlestur í Þjóðarbókhlöðunni undir yfirskriftinni „Hvers vegna þurfum við að minnast fórnarlambanna“ og fjallar þar um fórnarlömb alræðis í Evrópu og þær hörmungar sem kommúnisminn og nasisminn leiddu yfir hundruð milljóna manna. Sú saga má ekki gleymast. 

Um leið og vakin er athygli á þessum fyrirlestri, og myndasýningunni sem lýkur í dag, er rétt að minna á nokkrar bækur í Bóksölu Andríkis, sem hver um sig fjallar um þessi mál og allir íslenskir áhugamenn um þjóðmál ættu að eiga og lesa.

Kommúnisminn, eftir Richard Pipes sagnfræðiprófessor við Harvard háskóla í Bandaríkjunum, er afar aðgengilegt rit um útbreiðslu kommúnismans, stjórnarhætti Leníns og Stalíns, og hvernig kommúnisminn þróaðist um víða veröld. Þar er til dæmis fjallað um Salvador Allende og Chile með aðeins öðrum hætti en íslenska Ríkisútvarpið gerir öðru hverju.

Svartbók kommúnismans er ótrúleg og óhugnanleg lesning sem fyllir venjulegan lesanda furðu á því hversu mikilli illsku menn virðast reiðubúnir að beita náunga sinn, þegar þeir telja sig vera að „bæta heiminn“. Og hún ætti líka að fylla lesandann þakklæti fyrir að hafa ekki fæðst í röngu landi á röngum tíma. – Svartbókin er nú uppseld.

Íslenskir kommúnistar 1918-1998 eftir Hannes H. Gissurarson er einstaklega aðgengilegt rit um sögu íslenskra kommúnista og arftaka þeirra, bæði í stjórnmálum og menningarlífi. Rauði þráður íslenskrar vinstrihreyfingar hefur verið ótrúlega óslitinn.

Engan þarf að öfunda, eftir Barböru Demick, segir ótrúlegar sögur úr hinu lokaða ríki Norður-Kóreu. Þar er lýst óhugnanlegum aðstæðum sem venjulegt fólk býr við, á þessari stundu. 

Nótt, eftir Elie Wiesel, segir frá lífi unglingsdrengs og föður hans í Auschwitz og Buchenwald. Afar vel skrifuð bók.

Sovét-Ísland óskalandið,  eftir prófessor Þór Whitehead lýsir því hvernig íslenskir kommúnistar unnu hörðum höndum að því að koma Íslandi undir Sovétríkin.

Stasiland eftir Önnu Funder segir sögur af lífi venjulegs fólks handan Berlínarmúrsins.