M aður einn á í stökustu vandræðum.
Þannig er mál með vexti að kona nokkur hefur í hótunum við hann. Hún krefur hann um tuttugu og fimm milljónir króna og segir að það séu vangreidd barnsmeðlög sem hann skuldi. Maður þessi segist að vísu aldrei hafa hitt konuna, hvað þá að hann eigi með henni barn. Hann telji sig því hafa góða möguleika ef málið fari fyrir dóm. Í raun hafi konan engin lagarök með sér, önnur en frekjuna. Telji hann raunar að konan muni aldrei fara fyrir dóm með slíka lögleysu.
Samt er þessi maður áhyggjufullur. Hann segir að hann hafi alls ekki efni á því að borga þessar tuttugu og fimm milljónir, ef að dómsmálið fari illa. Þó að lagalega skuldi hann konunni ekki neitt, þá geti auðvitað enginn sagt fyrir um úrslit dómsmáls með hundrað prósent vissu. Nú hafi lögmenn konunnar gert honum tilboð um að hann borgi þegar í stað sjö milljónir auk þess sem hann borgi henni þriðjung allra launahækkana sinna næstu þrjátíu og sex árin, en ef launin hækki ekki umfram launavísitölu þá eigi hann að bæta henni það upp með tíu milljóna króna vangildisbótum, en það sé auðvitað mjög ólíklegt.
Maðurinn segir að sérfræðingar sínir telji að hann hafi líklega efni á þessu tilboði, þótt hann verði þá auðvitað að spara flest annað við sig næstu árin. En þeir ítreki að hann megi alls ekki við því að verða dæmdur til að greiða alla kröfuna. Svo sé það siðaðra manna háttur að gera út um deilur með samningum.
Hvað ráðleggja lesendur manninum að gera?