[Moody’s telur] að samþykkt samnings opni dyr að alþjóðlegum lánsfjármörkuðum án frekari skýringa. Aðgangur Íslands að alþjóðlegu fjármagni er ekki settur í sögulegt samhengi né í samhengi við alþjóðlegan lánsfjárvanda ríkja. Ef frá er talið tímabil óeðlilegrar lánsfjárbólu og stóriðjuframkvæmdir með sértækri lagasetningu þá hefur ekki verið mikið um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Ekki er ljóst hvort samþykkt samnings muni gjörbreyta þessari sögulegu stöðu. |
– Kári Sigurðsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, skrifar í Fréttablaðið í gær um mat Moody’s á lánshæfi Íslands. |
H vernig ætli talið um að ríkisábyrgð Íslendinga á Icesave myndi opna flóðgáttir erlends fjármagns hafi eiginlega byrjað? Jú, það hófst fyrir Icesave II og átti upptök sín í fjármálaráðuneytinu. Að halda þessu fram við þær erfiðu aðstæður sem hafa verið á alþjóðlegum lánamörkuðum undanfarin misseri er auðvitað sérstakt, ekki síst í sögulegu ljósi eins og Kári Sigurðsson hagfræðingur benti á í Fréttablaðinu í gær.
Þar við bætist að við völd á Íslandi er ríkisstjórn sem er mjög fjandsamleg erlendri fjárfestingu. Hótanir um þjóðnýtingu og að menn hafi ekki séð nema toppinn á þeim ísjaka skattahækkana sem stefni á launþega og atvinnulíf auka ekki áhuga erlendra fjárfesta á landinu. Í landinu eru einnig gjaldeyrishöft sem nýbúið er að framlengja í 4 ár. Það þýðir að fjárfestar komast inn með fé en ekki út!
Því má heldur ekki gleyma að með neyðarlögunum 2008 voru íslenskir og erlendir stofnanafjárfestar settir út í kuldann, meðal annars til að tryggja innstæðueigendum á Icesave í Bretlandi og Hollandi miklu betri endurheimtur á innstæðum sínum en tilskipun ESB um innlánstryggingar gerði ráð fyrir. Margir þessara fjárfesta reka nú mál sín vegna neyðarlaganna fyrir dómstólum og eru í óða önn við að afskrifa lán til íslensku bankanna í bókum sínum. Áhugi þessara aðila á frekari lánveitingum til Íslands mun auðvitað ekki vakna þótt JÁ verði ofan á í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn, nema síður sé.
M erkilegt hvað femínistar eru skyndilega orðnir umburðarlyndir. Fyrir nokkrum árum hófst um verslunarmannahelgi mikil barátta sem ætlað var að breyta ímynduðum viðhorfum ungra manna til nauðgana. Fór hún fram undir yfirskriftinni „Nei þýðir nei.“ Einhverjir tóku þá upp á því að svara átakinu með slagorðinu „Nei er ekkert svar“, og fannst ýmsum það heldur kuldaleg skilaboð um alvarlegt mál.
Nú hafa Evrópusinnar tekið upp sama svar, í baráttu sinni fyrir því að þjóðin samþykki nú Icesave-ánauðina sem hún hafnaði í fyrra. „Nei er ekkert svar“, segja þeir og þykjast góðir.
Einhvern tíma hefðu kvenfrelsissinnar tekið því illa, að hent væri á lofti slagorð þeirra sem hæddust að baráttuherferðinni gegn nauðgunum. En nú eru femínistar auðvitað þræddir upp á flokkslínu Steingríms J. Sigfússonar, svo þær neyðast til að láta sér nægja að þegja og kyngja með Tryggva Þór Herbertssyni. Sá matseðill kvað líka venjast eins og annar.
Má varla á milli sjá, hvorir eru einkennilegri, vinstrimennirnir sem fylgja flokkslínunni um að leggja útrásarskuldir á almenna borgara, eða forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem reyna að gefa út slíka flokkslínu. Hvers vegna í ósköpunum ættu vinstrigrænir að láta vinnandi fólk gangast undir óviðkomandi einkaskuldir? Og hvers vegna ættu sjálfstæðismenn að leggja slíkar byrðar á fólk? Þetta ætti að vera báðum flokkum gersamlega óskiljanlegt rugl. Það er hins vegar ekkert undarlegt við afstöðu Samfylkingarinnar. Þar á bæ er allt fullt af Samfylkingarmönnum.
A llur kostnaður við starfsemi Andríkis, þar með talinn kostnaður við birtingu auglýsinga og gerð skoðanakannana vegna Icesave málsins, er greiddur með frjálsum framlögum.
Reikningsnúmer félagsins er 512-26-200 og kennitala 5107952379.