Föstudagur 8. apríl 2011

98. tbl. 15. árg.

Ó málefnalegur áróður frá Áfram-hópnum hefur undanfarið leitt til úlfúðar og misklíðar innan hópsins. Vefþjóðviljinn hefur áður sagt frá því hve meðlimir hópsins brugðust illa við hákarla-auglýsingum hópsins á Facebook. „Óverjandi að birta svona vitleysu,“ skrifaði einn stuðningsmaðurinn. Þegar Áfram-hópurinn birti auglýsingu með 20 fyrrverandi ráðherrum skrifaði einn Áfram-maðurinn að nokkrir ráðherranna í auglýsingunni væru „óreiðumenn“ því þeir hefðu tekið þátt í einkavæðingu bankanna. Smekklegt að fá menn með í auglýsingu og atyrða þá svo.

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að hinn 4. apríl var svo rætt við Guðmund Odd Magnússon prófessor og stuðningsmanns Áfram-hópsins um hákarla-auglýsinguna.

Guðmundur Oddur vandaði félögum sínum í Áfram-hópnum ekki kveðjurnar: „Þetta er náttúrulega á ofsalega lágu plani að mínu mati. Þetta er sko þegar menn eru orðnir uppiskroppa með upplýsingu og menntaða umræðu, þá er þetta eiginlega á allægsta plani sem hægt er að ímynda sér. Þetta er gert í fyrsta lagi, ja ég veit ekki til þess, nema til að upphafið að þessu þess megi rekja til millistríðsáranna, bæði í þriðja ríki Hitlers og hjá Ameríkönum og Bretum í aðdragandanum að seinni heimsstyrjöldinni. Þá er það sem svona auglýsingar koma fram. Þá er notað svona sterkt myndmál og þetta er tilfinningaleg hönnun, það er ekkert vit í þessu, ekki nokkurt.“

M una menn eftir honum þessum? Hann er alveg ágætur þegar hann kýs það – það er að segja NEI.

Í gær sagði Morgunblaðið frá því að Samtök fjármálafyrirtækja, það er að segja bankarnir, og Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafi veitt milljónum króna til að fjármagna baráttu svonefndra Áfram-samtaka, sem berjast fyrir því að Ísland gangist undir Icesave-ánauðina.

Þessi frétt er mjög athyglisverð. Og það er annað sem er ekki síður athyglisvert. Hvað hefur „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ sagt mikið frá þessu máli? Nákvæmlega ekkert. Ekki orð. Það er þá sennilega misminni að hún hafi nokkurn tíma haft áhuga á því hvernig þátttakendur í stjórnmálabaráttu fjármagni sig.

En kannski ætla Óðinn Jónsson og félagar ekki að þegja um þetta. Þeir koma kannski með fréttaskýringu um þetta eftir helgi, um svipað leyti og Steingrímur J. Sigfússon svarar meira en mánaðargamalli fyrirspurn um það hversu marga milljónatugi þeir fengu fyrir vinnu sína, samninganefndarmennirnir sem þykja geysilega mikilvægir heimildamenn um kosti síns eigin samkomulags.

ÍÍ gær sýndi Ríkissjónvarpið svo síðasta „kynningarþáttinn“ fyrir Icesave-kosninguna. Þar voru meðal gesta Margrét Kristmannsdóttir, sem ævinlega var kynnt sem formaður Samtaka verslunar og þjónustu, sem hún er, en aldrei sem varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem hún er líka. Það var heldur aldrei sagt frá því að hún studdi líka Icesave-II samninginn, sem hefði kostað landsmenn hundruð milljarða króna til viðbótar því sem sá nýjasti kostar. Þar var einnig Guðmundur Heiðar Frímannsson heimspekingur, en þess var ekki getið að fyrir rúmu ári talaði hann opinberlega fyrir þeirri skoðun að það væri „hollt“ fyrir Íslendinga að þurfa að borga sem allra mest fyrir Icesave, því þeir þyrftu að finna sárt til bankahrunsins. Það væri svo hollt fyrir okkur.

Þetta ágæta fólk þykir enn miklir vegvísar í Efstaleiti.

S amkvæmt nýrri könnun MMR fyrir Andríki, sem gerð var 4.-7. apríl, virðist þróun undanfarinna vikna í Icesave málinu halda áfram. Frá því lögin voru samþykkt á Alþingi hefur sífellt hærra hlutfall sagst ætla að hafna lögunum.

Spurt var: Ef kosið yrði um nýjustu Icesave lögin í dag, hvort myndir þú kjósa með eða á móti?

Niðurstöður eru þær að 57,3% vill hafna lögunum en 42,7% samþykkja. Þetta er mesta forskot sem NEI hefur mælst með í könnunum til þessa.

MMR spurði síðan tveggja spurninga: Hversu líklegt eða ólíklegt er að þú takir þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave lögin sem fram fer laugardaginn 9. apríl næstkomandi? Og: Hversu viss ertu um að það að kjósa [með lögunum/ á móti lögunum] sé rétt ákvörðun?

Í stuttu máli sagt ætla nær allir (94,2%) að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og nær allir segjast standa fast á sínu. NEI-menn segjast í 90,6% tilvika vera nokkuð eða algerlega vissir um að ákvörðun þeirra sé rétt en 84,8% JÁ-manna. Mun hærra hlutfall NEI-manna en JÁ-manna segist þó algerlega viss um að taka rétta ákvörðun.

MMR greinir svo niðurstöðurnar eftir aldri, kyni, búsetu, stuðningi við stjórnmálaflokka og svo framvegis. Það sem helst fangar athygli Vefþjóðviljans í þeim efnum er að eini tekjuhópurinn sem hallast fremur að JÁ er sá með yfir 800 þúsund krónur í laun. Í þeim launaflokki hafa menn sennilega mestan skilning á þeim orðum Steingríms J. Sigfússonar í þinginu í fyrradag að íslenskir samninganefndarmenn í Icesave málinu hafi fengið „hóflegar“ greiðslur upp á nokkra „tugi milljóna.“

Því miður eru starfsmenn RÚV ekki bakgrunnsbreyta í þessari könnun. JÁ menn geta því ekki stært sig af 90% fylgi í neinum hópi aðspurðra.