Forlög koma ofan að, örlög kringum sveima. Álögin úr ýmsum stað, en ólög fæðast heima. |
– Páll Vídalín |
M argt hefur á Íslendingum dunið síðustu misseri. Stærstu fyrirtæki landsins fóru illa út úr þeirri kreppu sem Vesturlönd gengu í gegnum, ýmsir erlendir aðilar, ríki og stofnanir, beittu sér gegn íslenskum hagsmunum og bættu svörtu ofan á grátt. Og nú stendur ríkisstjórnin hörð í því að samþykkja með lögum að stórfelldar ábyrgðir leggist á íslenska ríkið, ábyrgðir sem því koma ekkert við.
Margir hafa gert ýmis mistök á liðnum árum. Slíkt þarf auðvitað ekki að koma á óvart, þó margir eftirávitar hiki ekki við að dæma fyrri ákvarðanir út frá því sem reynslan hefur sýnt, þegar alþjóðleg og innlend atburðarás liggur fyrir, en ekki út frá því sem lá fyrir þegar ákvarðanir eru teknar.
En yfirvofandi ákvörðun ríkisstjórnarmeirihlutans um að Ísland skuli gangast í ábyrgð fyrir Icesave-skuldum Landsbankans, hún er á margan hátt ólík þessu. Hér liggja fyrir ótal lögfræðiálit þess efnis að engin slík skylda hvíli á íslenska ríkinu. Hér liggur ekkert á, allar hrakspár um slíkt hafa reynst vera tylliástæða fyrir svipuhöggum á þingmenn. Hér geta menn vel hugsað sinn gang og tekið sönsum. Það er engin þörf á að samþykkja lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna.
En stundum er eins og stjórnvöld vilji hafa svarta nótt um bjartan dag. Ráðherrar tala dag og nótt um erfiðleikana sem við sé að glíma og í skjóli þeirra standa þeir fyrir stórfelldum aðgerðum sem miða að því að stækka hlut ríkisins en minnka hlut borgaranna á sem flestum sviðum. Ríkið tekur meira og meira af fólki, og útdeilir svo eftir vilja ráðherranna. Og þegar þeim aðgerðum fylgja alvarlegar ræður um ótrúlega erfiðleika sem ræni ráðherra svefni og sælu, þá andæfa færri.
En staðan er líklega mun betri en ráðherrarnir láta. Ef þeir einfaldlega létu íslenska ríkið ekki taka á sig annarra skuldir, létu það halda sig til hlés og eyða ekki um efni fram, þá myndi staðan batna fyrr en varir. Ef ríkið kynni sér hóf í sköttum og höftum, þá myndi atvinnulífið fljótt fá þann kraft sem það þarf til að hagur hins almenna manns vænki á ný. En það mun hann ekki gera með aukinni skattheimtu og skuldasöfnun.
Ráðherrar halda hins vegar í þveröfuga átt. Þeir tala samfellt um stórfellda erfiðleika fólks og fyrirtækja og hækka svo skattana á bæði fólk og fyrirtæki. En erfiðleikarnir eru ýktir.
Það er auðvitað leiðinlegt að ríkisstjórnin sé fremur í því að lemja þrek og kjark úr fólki en að byggja hvort tveggja upp. En það er bara eins og það er, og Íslendingar ættu ekki að láta það eftir ríkisstjórninni að neita sér um alla bjartsýni. Og ef menn vilja einsetja sér að láta nú af þeirri svartsýni og uppgjöf, sem sumir tala fyrir í hverju orði, hvenær er þá betri tími til þess en einmitt á þeim tímamótum þegar stór hluti heimsbyggðarinnar lítur upp úr sínum daglegu önnum til að minnast þess sem einu sinni gerðist, þá er Kýreníus var landsstjóri á Sýrlandi?
Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegra jóla.
|
E inhver glöggur lesandi kann nú að hafa fengið það á tilfinninguna að hann hafi lesið pistilinn hér að ofan áður. Og það er rétt til getið hjá honum. Þetta er sami pistill og birtist fyrir nákvæmlega einu ári um þá ríkisstjórn skuldaánauðar, bölmóðs, hafta og skatta sem því miður er einnig ríkisstjórn Íslands. Er það ekki sæmilegur vitnisburður um það hvernig henni miðar fram veginn?