Fimmtudagur 23. desember 2010

357. tbl. 14. árg.

E

Andrés Magnússon getur ekki aðeins pósað eins og formaðurinn í auglýsingum fyrir kosningar. Andrési virðist líka hafa tekist að ná kjöri á stjórnlagaþingið á meðan hann var varamaður á Alþingi. Það er þó sérstaklega bannað í lögum um stjórnlagaþingið.

itt furðulegasta uppátæki síðustu missera, og er þá nokkuð langt til jafnað, er stjórnlagaþingið sem meirihluti Alþingis efndi til, við lítinn áhuga hins almenna Íslendings. Eftir kosningar til stjórnlagaþingsins, sem yfirgnæfandi meirihluti landsmanna sniðgekk þrátt fyrir kröfur valdhafa um hið gagnstæða, hafa borist nokkrar kærur vegna framkvæmdar kosninganna, og sést af fréttum að kærurnar snúast um mjög alvarlega galla sem ekki verður horft framhjá, þótt allir viti að stjórnmálaelítan vilji auðvitað að þar, eins og svo víða annars staðar, verði ekkert gert með lög og rétt.

En þau mál sem sagt hefur verið frá í fréttum eru auðvitað ekki það eina sem vekur athygli í framkvæmd kosninganna. Þar er margt fleira sem mætti nefna, þótt það sé kannski ekki allt eins augljóst og kæruefnin bersýnilega eru.

Dæmi: Í 6. gr. laga um stjórnlagaþing segir: „Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd eru þó ekki kjörgengir.“

Meðal þeirra sem ekki eru kjörgengir, samkvæmt lögunum, eru alþingismenn og varamenn alþingismanna.

Í síðustu alþingiskosningum voru fimm efstu menn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í suðvesturkjördæmi þessir: 1. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, 2. Ögmundur Jónasson, 3. Ólafur Þór Gunnarsson, 4. Margrét Pétursdóttir, 5. Andrés Magnússon.

Vinstrigrænir fengu tvo þingmenn í kjördæminu. Þau Guðfríður Lilja og Ögmundur fengu því sæti á alþingi. Varamenn þeirra voru þá þau Ólafur Þór og Margét.

Guðfríður Lilja hefur verið í leyfi frá þingstörfum frá því í október, fyrir kjörið til stjórnlagaþings. Fyrir vinstrigræna sitja því á þingi þeir Ögmundur og Ólafur Þór. Varamenn þeirra eru þá væntanlega þau Margrét og Andrés.

Andrés Magnússon bauð sig fram til stjórnlagaþings og náði kjöri, samkvæmt áliti landskjörstjórnar. Hann var á þeim tíma annar maður frá þeim tveimur sem sátu á þingi fyrir Vinstrigræna í suðvesturkjördæmi.

Þetta er bara lítið atriði og kannski smámál miðað við þau kæruefni sem sagt hefur verið frá.