Miðvikudagur 22. desember 2010

356. tbl. 14. árg.

B orist hefur tilkynning: Frá Stjórnmálaskóla Samfylkingarinnar. Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar hefur verið ráðinn skólastjóri. Hún tekur við af Magnúsi Árna Magnússyni, fyrrverandi þingmanni Jafnaðarmanna. Hann tók við af Ágústi Einarssyni, fyrrverandi þingmanni Þjóðvaka sem tók við af Runólfi Ágústssyni oddvita framboðslista Þjóðvaka.

Þ að var augljóslega stórfrétt sem Morgunblaðið sagði síðastliðinn mánudag, þegar blaðið upplýsti að þeir þrír þingmenn vinstrigrænna, sem ekki studdu fjárlagafrumvarp Steingríms J. Sigfússonar og ríkisstjórnarinnar, hefðu ráðið ráðum sínum um málið á fundi með tveimur ráðherrum flokksins og þingflokksformanni, sem brátt sest að nýju á þing. Enginn þessara einstaklinga neitar því að fundurinn hafi verið haldinn. Aðeins einn þeirra hefur gert efnislega athugasemd við frásögn af fundinum.

Málið er augljóslega pólitísk stórfrétt. Það sést af ýmsu:

Í fyrsta lagi: Menn þurfa ekki annað en að velta fyrir sér viðbrögðunum og hamagangi fjölmiðla ef að þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, á meðan hann sat í ríkisstjórn og fór með fjármálaráðuneytið, hefðu ekki stutt fjárlagafrumvarpið og í ljós kæmi að þeir hefðu haldið um það fund fyrirfram, með ráðherrunum Birni Bjarnasyni og Sturlu Böðvarssyni en aðrir ráðherrar flokksins hefðu ekki vitað neitt. Það hefði allir fréttatímar logað dögum saman.

Í öðru lagi þá leyna viðbrögð forystu Vinstrigrænna sér ekki, en þar eru ekki spöruð stóryrðin um þessa félaga þeirra. Þingmenn, sem vilja standa við kosningaloforð, þurfa að sögn forystu VG að leggja mig á sig héðan í frá, vilji þeir vinna að nýju traust þeirra sem er sama um öll sín loforð.

Í þriðja lagi – og það sem er ef til vill skýrasta vísbendingin um það hvílík stórfrétt var á ferð, og hvað hún kom sér illa fyrir ríkisstjórnarforystuna: Fréttastofa Óðins Jónssonar og Páls Magnússonar fréttir bara alls ekki af fundinum. Á meðan áhugamenn um stjórnmál og venjulegt fólk ræddi þetta fram og til baka sín á milli, þá kom ekki aukatekið orð um málið frá Fréttastofu Ríkisstjórnarútvarpsins. Þegar menn bera þetta mál svo saman við ýmis önnur, sem sama „fréttastofa“ fær á heilann af og til, þá sjá menn enn einu sinni hversu fráleitt það er að kalla það fréttastofu sem þeir reka í Efstaleiti.

Já, ímyndi menn sér aftur, að það hafi verið þrír stjórnarþingmenn úr Sjálfstæðisflokknum sem studdu ekki fjárlagafrumvarp Geirs Haarde, og að þeir hafi gert það eftir leynisamráð við Björn og Sturlu – og ímyndi menn sér svo að fréttastofu Ríkisútvarpsins finnist málið ekki þess virði að segja frá því.