Miðvikudagur 9. apríl 2003

99. tbl. 7. árg.
„Samfylkingin vill endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkisins og gera tekjuskattskerfið að raunverulegu tæki til tekjujöfnunar. Hún vill taka upp fjölþrepa tekjuskattskerfi þar sem skatthlutfall lækkar eftir því sem tekjur lækka og setja heildarlöggjöf um umhverfis- og mengunarskatta.“
 – Stefnuyfirlýsing Samfylkingarinnar fyrir síðustu þingkosningar.
„Við viljum skoða af alvöru fjölþrepa skattkerfi sem hefur þá kosti að það dregur úr skattbyrði þeirra sem hafa meðaltekjur og þar undir og það dregur úr áhrifum jaðarskatta.“
 – Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á opnum fundi í Tónlistarhúsinu í Kópavogi, 17. mars 2003.
„Það hefur í sjálfu sér aldrei verið stefna Samfylkingarinnar að taka upp fjölþrepa skattkerfi.“
 Hrannar B. Arnarsson Samfylkingarmaður og fyrrum borgarfulltrúi R-listans  á Rás 2, 7.apríl 2003.

Ekki er það ætlunin hér að gera allt í einu þá kröfu til Samfylkingarmanna að þeir muni hver stefna þeirra var síðast þegar þeir buðu fram þings. Nóg er nú samt að henda reiður stefnunni frá degi til dags. En tilvitnunin hér að ofan er í stefnuskrá Samfylkingarinnar er orðin fjögurra ára gömul. Það eru sumsé rúm fjögur ár frá því Samfylkingin sagðist vilja fjölþrepa tekjuskattskerfi. Nær 1.500 dagar. Fyrir kosningarnar 1999 var gengið á frambjóðendur hennar um það hver þessi þrep yrðu, hversu mörg, hversu breið og hversu há. Við því fengust lítil svör nema að þáverandi forsætisráðherraefni þeirra sagðist þráspurð í útvarpsþætti á Bylgjunni skömmu fyrir kosningar telja að þau yrðu 5 til 7 talsins. Aldrei var útskýrt við hvaða tekjumörk menn færðust upp í hærra þrep eða hve hár skattur yrði í hverju þrepi.

Enn fást engin svör. Þótt það liggi í hlutarins eðli að fjölþrepa skattkerfi er bæði dýrt og flókið heldur núverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar því fram að það sé hægur vandi að koma slíku kerfi á koppinn. Engu að síður hefur Samfylkingin aldrei útfært slíkt kerfi. Kerfið er ekki flókið, segir forsætisráðherraefnið, það er bara flókið að útfæra það! Samfylkingin hefur haft heilt kjörtímabil til að útskýra fyrir kjósendum hvað hún á við en ekki gert. Kjósendur eru engu nær um hvort hæsta þrepið verður miðað við 200 þúsund eða 400 þúsund eða hvort það verður 60% eða 80%.

Menn hafa ekki hugmynd hvar þeir enda í þessu fjölþrepakerfi. Nema kannski á hausnum.