Það virðist nú komið á hreint hvernig Samfylkingin hyggst haga málflutningi sínum í kosningabaráttunni að þessu sinni. Baráttuaðferðin virðist tvíþætt og í sjálfu sér kannski ekki auðvelt að benda á aðra sem líkleg er til að skila meiri árangri við núverandi aðstæður. Það er nefnilega ekkert skemmtiverk að bjóða sig fram fyrir stjórnarandstöðu eftir margra ára hagvöxt og einstæða kaupmáttaraukningu og það á sama tíma og skatthlutföll hafa verið lækkuð og erlendar skuldir verið greiddar niður. Og eins og þetta geri vígstöðu Samfylkingarinnar ekki nógu erfiða þá bætist við að nýjasti oddviti hennar – sem einn leiðtoga stjórnmálaflokkanna hefur ekkert lýðræðislegt umboð á bak við sig – kemur frá því að hækka bæði skatta og skuldir þess sveitarfélags sem henni var trúað fyrir. Svo það er kannski ekkert skrýtið þó Samfylkingarmenn seilist langt og leggist lágt í baráttunni.
Samfylkingarmenn berjast þessa dagana með tvennu móti. Í fyrsta lagi reyna þeir að grafa undan stjórnvöldum með gróusögum og hálfkveðnum vísum. Ef einhver hirðir um að krefja þá reikningsskila eða reka ofan í þá málflutninginn segjast þeir eingöngu vera að enduróma það sem þeir hafi heyrt einhvers staðar annars staðar og sé það beinlínis fráleit ásökun ef einhver heldur að þeir trúi sjálfir eigin undirróðri. Þetta er önnur aðferðin. Hin er sú að vefengja kerfisbundið allt það sem farið hefur vel á Íslandi undanfarin ár. Samfylkingarmenn mæta blákalt í fjölmiðla og af dæmafáum en innistæðulausum þótta mótmæla þeir hvaða staðreynd sem er. Þannig hyggjast þeir rugla fólk svo mikið að það treysti sér á endanum ekki lengur til að átta sig á því hvað snýr upp og hvað niður. Áróðursmeistarar Samfylkingarinnar hafa til dæmis fyrir löngu séð fyrir, að meðal þess sem stjórnvöld geta stært sig af eru þær lækkanir á ýmsum skatthlutföllum sem ríkisstjórnin hefur staðið að á undanförnum árum. Ákváðu áróðursmeistarnir því að „setja undir þann leka“, einfaldlega með því að neita því látlaust. Þó hver skattprósentan af annarri hafi verið lækkuð þá koma Samfylkingarmenn, bæði í hópi frambjóðenda og náinna stuðningsmanna innan ákveðinna hagsmunasamtaka, hver á eftir öðrum í fjölmiðla og æpa bara að skattar hafi bara ekki verið lækkaðir heldur þvert á móti hækkaðir!
Á dögunum kom út ný og ýtarleg skýrsla OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um íslensk efnahagsmál. Er skemmst frá því að segja að í skýrslunni er sérstaklega mælt með frekari lækkun skatthlutfalla, eins og ríkisstjórnarflokkarnir, og þá einkum Sjálfstæðisflokkurinn, berjast nú fyrir. Samfylkingarmenn voru leiftursnöggir að sjá að þarna fengu ríkisstjórnarflokkarnir öflugan stuðning við sinn málflutning og þá var gripið til þessarar nýju baráttuaðferðar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var samstundis mætt í hvern fjölmiðilinn á fætur öðrum og fullyrti þar, án þess að blikna, „að ríkisstjórnin [gæti] ekki sótt röksemdir fyrir skattastefnu sinni í nýútgefna skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Þar [væri] mælt með því að lækka jaðarskatta en ekki almenna skatta“ og undir það taki Samfylkingin. Að sjálfsögðu létu flestir fjölmiðlar þetta gott heita og sendu út með andakt. Morgunblaðið kannaði málið þó og bar undir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, sem vitaskuld benti á það sem blasað hafði við öllum sem lesið höfðu skýrslu OECD:
„Í umfjöllun skýrslunnar er ekki verið að tala um jaðarskatta í þeim sérstaka skilningi sem iðulega er lagður í það hugtak hér á landi, heldur þau skatthlutföll, sem eru í tekjuskattinum og útsvarinu. Hugmyndin sem hér býr að baki er sú, að þegar fólk þarf að borga ákveðið hlutfall af tekjum sínum. 38 % eða jafnvel 45 % samkvæmt svokölluðum hátekjuskatti, minnkar tilhneiging þess til að vinna, vegna þess að það fær þá minna í aðra hönd. Þessi neikvæðu áhrif eru hvað mest þegar kemur að því að hugleiða yfirvinnu og annað sérstaklega tekjuskapandi framtak sem fólk á kost á. En það eru einmitt þessir hlutir sem oft skipta höfuðmáli á vaxarbroddum hagkerfisins. Þetta virðist hafa farið framhjá sumum stjórnmálamönnum sem ég hef heyrt tjá sig um þetta mál. Þeir virðast halda, að í skýrslunni sé verið að fjalla um þá jaðarskatta sem venjulega er rætt um hér á landi, sem felast í því að fólk, sérstaklega þeir sem eru í lægri tekjuhópunum, tapi beinlínis á því að vinna meira vegna samspils styrkjakerfisins og skattakerfisins. Í skýrslu OECD er hins vegar verið að tala um jaðarskatta í hefðbundnum skilningi, bæði innan hagfræðinnar og í umræðu í öðrum löndum. þ.e.a.s. um þau skatthlutföll sem í gildi eru í tekjuskattskerfinu. Það má ráða af samhengi umfjöllunarinnar í skýrslunni að það þurfi fyrst og fremst að ráðast gegn hátekjuskattinum, vegna þess að hann hefur mest áhrif að þessu leyti.“ |