Fimmtudagur 10. apríl 2003

100. tbl. 7. árg.

Áundanförnum áratugum hafa menn mátt þola að eignir þeirra hafa hægt og örugglega verið gerðar upptækar á sem nemur einni mannsævi. Þessi ránsaðferð hefur gengið undir nafninu eignaskattur og árlega hafa menn mátt sjá á eftir 1,2% af eignum sínum umfram ákveðið mark. Þetta hafa verið eignir sem menn hafa eignast fyrir fé sem þeir hafa þegar greitt tekjuskatt af og líklega einnig virðisaukaskatt þegar eignin hefur myndast, hvort sem það hefur verið mótatimbur í uppslátt eða nýr bíll, Ofan á eignaskattinn bættist svo svonefndur Þjóðarbókhlöðuskattur sem var 0,25%. Ekki var óalgengt að menn væru að greiða 100 til 200 þúsund krónur á ári í eignaskatt af skuldlausu íbúðarhúsnæði.

Það er ekki síst eldra fólk sem býr í skuldlausu húsnæði. Ásta Möller þingmaður bendir á það í grein í Morgunblaðinu í dag að yfir 90% 67 ára og eldri búi í eigin húsnæði sem sé iðulega skuldlítið eða skuldlaust. Ásta bendir einnig á það í grein sinni að eignaskattur letur menn til að greiða niður skuldir sínar því ávinningurinn verður minni ef þú þarft að greiða skatt af hverri skuldlausri krónu.

Nú hefur Þjóðarbókhlöðuskatturinn hins verið lagður af og eignaskatturinn sjálfur lækkaður úr 1,2 í 0,6%. Því til viðbótar var eignamarkið sem skatturinn var miðaður við hækkað. Þeir sem greiddu 100 þúsund krónur í eignaskatt fyrir árið 2001 greiða því innan við 50 þúsund fyrir árið 2002.