Vefþjóðviljinn 114. tbl. 19. árg.
Það vantar sjaldnast afsakanirnar, eða réttlætingarnar.
Ein sem oft heyrist er „ég er bara að vinna mína vinnu“. Eins og það veiti þeim einhvern rétt sem þeir annars hefðu ekki. Rútubílstjóri sem stöðvar alla umferð í þröngri íbúðagötu í tuttugu mínútur þegar hann bíður eftir farþegunum sínum, svarar reiðum vegfarendum því að hann sé bara að vinna sína vinnu.
Fjölmiðlamenn nota stundum sambærilegar röksemdir þegar þeir eru gagnrýndir. „Hlutverk fjölmiðla er að segja fréttir“ segja þeir, rétt eins og þetta „hlutverk“ sé einhver skylda sem þeir hafi verið neyddir til að taka á sig.
Enginn fól fjölmiðlunum þetta „hlutverk“. Einhverjir hófu einfaldlega rekstur fjölmiðils, réðu til sín starfsmenn og byrjuðu að senda út, eða prenta efni. Þetta á ekki að veita þeim rétt umfram aðra. Þeir hafa ekkert opinbert hlutverk og ekkert opinbert vald.
Fjölmiðlamenn eru oft mjög uppteknir af eigin mikilvægi. Og af því að þeir hafa ákaflega sterka vígstöðu gagnvart stjórnmálamönnum hefur þeim tekist að knýja ýmis sérréttindi í gegn. En þau eru óeðlileg. Það á að meta fjölmiðlafyrirtæki eins og önnur fyrirtæki.
Auðvitað eru til starfstéttir sem hafa ákveðin réttindi og völd við vissar aðstæður. Augljós dæmi eru skipstjóri um borð í skipi, flugstjóri í flugvél, slökkviðsmaður á brunastað og lögreglumaður þar sem glæpur hefur verið framinn. Þessir menn hafa völd sem aðrir nærstaddir verða að beygja sig fyrir. En almennt veitir starf manna þeim ekki þau réttindi sem margir virðast halda þegar þeir spila út röksemdinni sinni: „Ég er bara að vinna mína vinnu“.
Fjölmiðlar ættu ekki að réttlæta sig með því að segja að það sé „hlutverk þeirra“ að segja fréttir. Þeir ættu frekar að segja að þeir hefðu sjálfir ákveðið að skrifa og segja fréttir. Í því hlutverki eiga þeir að vera eins og hverjir aðrir borgarar, með sömu skyldur og réttindi.
En með þessu er ekki sagt að fjölmiðlar séu ekki þýðingarmiklir. Það er einmitt mjög mikilvægt að til séu traustir fjölmiðlar sem flytja ábyggilegar fréttir og vandaðar fréttaskýringar, byggðar á innsæi og þekkingu reyndra blaðamanna. Enginn ætti að láta sér óvandaða miðla nægja. Fjölmiðlar eru mikilvægir, eins og svo ótalmargir aðrir í þjóðfélaginu.