F járhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár var afgreidd í borgarstjórn í fyrradag og af því tilefni var rætt við nýjan borgarstjóra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær. Sem kunnugt er ákvað R-listinn að hækka útsvarið upp í hámark og fréttamaðurinn spurði að því hvort að þessi hækkun hefði verið nauðsynlegt. Fróðlegt var að heyra viðhorf Steinunnar:
Ef að menn ætla að reka sveitarfélögin með ábyrgum hætti, bara líkt og þegar fólk er að reka sín eigin heimili, þá verður að auka tekjurnar með einhverjum hætti og þetta er ekki bara með tilliti til næsta árs sem að við erum að reyna að auka tekjurnar heldur til framtíðar. |
Samlíking Steinunnar við rekstur heimilanna er einkar óheppilegur. Hvað skyldu heimilin gera þegar ljóst er orðið að eyðslan hefur árum saman verið langt umfram tekjur þrátt fyrir að tekjur hafi hvað eftir annað hækkað langt umfram almenna hækkun í þjóðfélaginu? Ætli heimilin fari bara ofaní vasa nágrannanna og sæki frekari tekjur þangað til að geta haldið áfram á eyða og spenna? Nei, heimilin haga sér ekki þannig. Heimilin geta reynt að auka tekjurnar með því að heimilismenn vinni meira eða fái betur launuð störf, en þau auka ekki tekjur sínar eftir því sem hentar með því að fara átakalaust í vasa annarra. Það sem heimilin gera hins vegar yfirleitt þegar eyðsla er til langs tíma umfram tekjur er að skera niður eyðsluna. Þetta er nokkuð sem R-listinn hefði átt að gera fyrir löngu og þá væri skuldasöfnun og skattahækkun ekki árlegt brauð fyrir þá sem þurfa að þola núverandi stjórnvöld Reykjavíkur.
Í staðinn hækkar R-listinn skatta og fleiri gjöld sem Reykvíkingar komast ekki hjá því að greiða, svo sem heita vatnið þegar of hlýtt er í veðri! Og á sama tíma safnar R-listinn skuldum fyrir hönd Reykvíkinga, hvort sem litið er á borgarsjóð einan eða heildarskuldir borgarinnar. Á þeim áratug sem R-listinn hefur verið í aðstöðu til að eyðileggja fjárhag Reykjavíkurborgar hafa skuldir borgarinnar vaxið það mikið að skuldaaukningin á hverja fjögurra manna fjölskyldu er um 2 milljónir króna. Og ekki er reynt að draga úr eyðslunni, því gert er ráð fyrir að útgjöld Reykjavíkurborgar á næsta ári verði 8% hærri en útgjöld þessa árs. Væri ekki ráð að R-listinn og nýr borgarstjóri hans tækju aðeins á útgjaldahliðinni í stað þess að seilast sífellt dýpra í vasa skattgreiðenda?