Föstudagur 17. desember 2004

352. tbl. 8. árg.

Flest bendir nú til að Bandaríkjamenn ætli að sér að taka upp einkarekið eftirlaunakerfi í auknum mæli, sem segja má að sé svipað séreignasparnaði Íslendinga. Svonefnt „Social security“ kerfi Bandaríkjamanna stefnir nefnilega rakleiðis á hausinn eins og flest slík ríkisrekin kerfi á Vesturlöndum. Bush forseti boðar því þessa dagana, eins og hann gerði í kosningabaráttunni í haust, að landsmenn verði leystir undan þessu kerfi að einhverju leyti að minnsta kosti og gefinn kostur á að leggja fé í séreignarsparnað sem virðist vera með svipuðu sniði og hér á landi. Menn munu hafa takmarkað val á milli bundinna sparnaðarreikninga og verðbréfasjóða en ekki geta tekið peningana og freistað gæfunnar í Vegas, svo vitnað sé í forsetann.

Þetta leiðir hugann að því hvers vegna nú stendur til að hækka svonefndar skyldugreiðslur í lífeyrissjóði Íslendinga úr 10 í 11% um áramótin. Það er sagt gert því annars þurfi að skerða lífeyrinn. Það eru einkennileg rök. Fæstir hafa val um í hvaða sjóð skyldulífeyrisgreiðslur þeirra renna og því er verið að auka þann hlut launa sem launþegar hafa lítið sem ekkert um að segja. Fulltrúar atvinnu- og verkalýðsrekenda skipta stjórnum sjóðanna á milli sín og sama hversu óhönduglega tekst til um rekstur þeirra eiga launþegar engrar undankomu auðið. Þótt ákveðin þvinguð af hálfu ríkisvaldsins, með skattalegu hagræði eða skattfrestun, sé falin í viðbótarlífeyrissparnaðinum svonefnda er hann þó þannig að menn geta valið milli sjóða.

Það kom verulega á óvart að R-listinn skyldi hafa fylgi meiri hluta borgarbúa samkvæmt skoðanakönnun Gallups sem birtist 1. desember síðastliðinn. Aðeins í Breiðholti mun stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn vera meiri en við R-listann. Í Breiðholti styðja 51% Sjálfstæðisflokkinn en aðeins 31% í vestur- og miðbæ. Ef að þessi mikli munur á fylgi flokka eftir hverfum í Reykjavík er raunverulegur og varanlegur þurfa sjónvarpsstöðvarnar kannski að fara að hafa það í huga þegar þær „kanna hug vegfarenda“ til mála að viðbrögðin geta verið ólík eftir því hvort vegfarendur í Austurstræti eða Austurbergi eru spurðir.

Þessi könnun Gallups var að hluta til gerð í kjölfarið á hækkun R-listans á útsvari sem hefur þær afleiðingar að Reykvíkingar verða af hluta af tekjuskattslækkuninni sem verða á um áramótin. Skólar borgarinnar höfðu verið lokað vikum saman áður en könnunin var gerð. Könnunin var jafnframt gerð á meðan upplausnarástand ríkti innan R-listans vegna forystumála listans.

Spyrja má hvenær Sjálfstæðisflokkurinn eigi sóknarfæri í borginni ef ekki við þessar aðstæður.

Nú eru málin sjaldnast svo einföld sem hér er lýst. Ótal þættir hafa áhrif á svör fólks í könnunum. Vinstrigrænir virðast til dæmis hafa tekið við því hlutverki Kvennalistans að njóta mikils stuðnings í könnunum milli kosninga en uppskeran er rýrari í kosningum. Það er eins og menn noti slíka flokka til að gefa hinum flokkunum viðvörunarmerki í skoðanakönnunum. Vefþjóðviljinn bíður þess raunar og vonar að vinstrigrænir fái meira fylgi en Samfylkingin í einhverri skoðanakönnuninni. Eins og sumir sveiflast eftir niðurstöðum skoðanakannana má allt eins búast við því að í kjölfarið á slíkri niðurstöðu lýsti Samfylkingin stuðningi við vinstrigræna og algerri andstöðu við sjálfa sig.