Fimmtudagur 16. desember 2004

351. tbl. 8. árg.

Þeir Halldór Ásgrímsson og Sigmúnd Jóhansson hafa nú samið um að ríkið eignist þær þjóðmálamyndir sem sá síðarnefndi hefur teiknað og birt síðustu fjörutíu árin eða svo. Myndirnar eru um tíu þúsund og þykir forsætisráðuneytinu þær vera „á sinn hátt aldarspegill þjóðarinnar og má með þeim skoða sögu íslenskra stjórnmála, atvinnulífs og menningar“. Það má til sanns vegar færa þótt það réttlæti ekki að skattfé sé notað til þess að koma myndunum í opinbera eigu. Vefþjóðviljinn er auðvitað andvígur opinberum umsvifum og sú skoðun blaðsins þarf ekki að koma á óvart. Það sem hins vegar kemur svolítið á óvart í umræðu um þessi kaup, er það að ýmsir, sem yfirleitt gera engar athugasemdir við svokölluð listaverkakaup eða álíka starfsemi hins opinbera, láta nú eins og Halldór Ásgrímsson sé orðinn galinn.

Hið opinbera, ríki og ekki síður sveitarfélög, er sífellt að eyða fé til lista- og menningarmála, og þá meðal annars til að kaupa og sýna allskyns dót sem einhverjum mönnum þykir mikil list. Svo eru byggðir og reknir sýningarsalir. Sveitarfélög gera menn að bæjarlistamönnum. Ríkið hefur menn á heiðurslaunum, tæpum tveimur milljónum á ári, jafnvel menn í fullu fjöri. Þar að auki koma starfslaun og aftur starfslaun, allt á kostnað skattgreiðenda. Núna síðast var Reykjavíkurborg að kaupa „tilfinningatorg“ af rithöfundi einum og gott ef rithöfundurinn er ekki búinn að bjóðast til að verða starfsmaður torgsins. Allt þetta þenst út og fáir sem þora að segja aukatekið orð; stjórnmálamenn sennilega að ímynda sér að þeir fái einhvern daginn atkvæði menningarklíkunnar, þó þær væntingar bregðist vitaskuld eins og aðrar. En svo þegar ríkið kaupir allar frummyndir Sigmúnds, og eignast til þeirra öll réttindi, myndir sem þorri landsmanna kannast við og margir hafa haft mjög gaman af, þá er skyndilega látið eins og kaupandinn hafi misst vitið.

Vefþjóðviljinn vill ekki að ríkið kaupi þessar myndir frekar en aðra framleiðslu landsmanna, hvort sem hún nefnist list eða lopavettlingur. En hvers vegna þessi viðbrögð ýmissa annarra nú? Þykir menningarliðinu Sigmúnd kannski ekki nægilega fínn? Óvenjulegur maður í Vestmannaeyjum, gott ef ekki kunningi Árna Johnsen. Nei þá viljum við nú frekar kaupa dósahrúgu og sýna hana í Listasafni Íslands. Og fá opnunarhóf og kampavín.