Mánudagur 12. apríl 2004

103. tbl. 8. árg.

A nnar núverandi ritstjóra DV mun hafa sagt í nýlegu sjónvarpsviðtali að hvorki væri blað hans andvígt dómsmálaráðherra né færi það rangt með hluti. Í síðustu viku fylgdi ritstjórinn þeim orðum eftir með heilum leiðara undir fyrirsögninni „Dómsmálaráðherrann“ og lagði þar áherslu á hlutlægni sína meðal annars með þeim orðum að dómsmálaráðherra hefði með skipan hæstaréttardómara vakið „furðu og hneykslan allra löglærðra manna, annarra en þeirra sem eru múlbundnir á flokksklafa.“

Þessi staðhæfing er af svipuðum toga og ýmislegt sem sagt hefur verið í tilefni af þessu máli. En þó staðhæfingin hljómi eflaust vel í pólitískri stundarkappræðu þá er hún jafn röng og margt sem hljómar álíka vel. Auðvitað verður skipan hæstaréttardómara alltaf umdeild; fjöldi manna sækir um og flestir áhugamenn um lögfræði hafa skoðun á því hverjir séu heppilegastir í réttinn hverju sinni. Þegar það bætist við að fyrir valinu verður héraðsdómari sem er skyldur formanni stjórnmálaflokks blasir við að margir öðlast um leið nýtt tilefni til að efna til sem mests ágreinings um skipunina, gera hana tortryggilega og halda umræðu um hana vakandi eins lengi og nokkur kostur er. Fréttamenn öðlast líka sérstakan áhuga á málinu og taka að leita menn uppi til að tjá sig. Þrátt fyrir þetta er það hrein fjarstæða sem fullyrt er í leiðaranum. Það er auðvitað ekki svo að lögfræðingar, aðrir en þeir sem ritstjóri DV telur að hljóti að vera „múlbundnir á flokksklafa“, séu hneykslaðir á þeirri dómaraskipun sem svo margir vilja gera tortryggilega. Skoðanir eru einfaldlega skiptar eins og eðlilegt er þegar mikill fjöldi þekktra lögfræðinga, reyndir dómarar, reyndir lögmenn, kunnur prófessor, sækir um sömu stöðuna. Nú sannar það auðvitað ekkert um réttmæti skipunar hverjir eru samþykkir henni eða andvígir, en í ljósi leiðara DV er kannski rétt að vitna í tvo hæstaréttarlögmenn sem jafnvel ritstjóri DV mun sennilega ekki telja múlbundna sjálfstæðismenn.

„[M]eð fullri virðingu fyrir öllum þessum ágætu mönnum, þá held ég að Björn Bjarnason hafi gert alveg rétt fyrir réttinn með því að velja Ólaf Börk. Það er bara mín skoðun.“

Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og forstjóri Norðurljósa, var gestur Þorfinns Ómarssonar í þættinum „Í vikulokin“ síðastliðið haust, eftir að talsverðar deilur höfðu orðið um dómaraskipunina. Um hana sagði hann:

Birni Bjarnasyni var geysilegur vandi á höndum, vegna þess að þú ert með alveg frábæra lögfræðinga þar sem þú hefur úr að velja, eins og Ragnar Hall, Eirík Tómasson, Jakob Möller, Hjördísi [Hákonardóttur], Sigrúnu [Guðmundsdóttur], Ólaf Börk [Þorvaldsson]. Bíddu, hvað er ekki í Hæstarétti í dag? spyr Björn sig örugglega. Það er enginn Evrópuréttarsérfræðingur í Hæstarétti og Evrópuréttur, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er alltaf að verða stærri og stærri partur af íslenskri löggjöf og dómstólar íslenskir þurfa að fá álit Evrópudómstólsins á túlkun íslenskra laga þannig að ég, með fullri virðingu fyrir öllum þessum ágætu mönnum, þá held ég að Björn Bjarnason hafi gert alveg rétt fyrir réttinn með því að velja Ólaf Börk. Það er bara mín skoðun. Og það sem ég þekki til Ólafs Barkar af dómstörfum, það er bara mjög gott.“

Sigurður var í framhaldi spurður hvort hann teldi að frændsemi Ólafs Barkar við formann Sjálfstæðisflokksins hefði skipt máli. Það taldi hann ekki. „Ég bara geng út frá því að Björn Bjarnason bara vinni þannig að það hafi ekki haft áhrif og ég held að Ólafur Börkur Þorvaldsson hafi bara sýnt það í störfum sínum í gegnum tíðina að hann hafi bara komist áfram á eigin verðleikum.“

„Nei nei, ég held að þetta sé gott mál.“

Annar hæstaréttarlögmaður, sem varla er múlbundnari en Sigurður og er í hæsta lagi leynifélagi í Sjálfstæðisflokknum, er Ragnar Aðalsteinsson. Talað var við hann í DV síðastliðið haust um það hvort „það sé rétt sem ætla mætti af umfjöllun ýmissa fjölmiðla undanfarna daga, að allt sé í háalofti í lögmannastéttinni í kjölfar þess að Ólafur Börkur Þorvaldsson var skipaður hæstaréttardómari.“ Og Ragnar Aðalsteinsson svarar: „Nei nei, ég held að þetta sé gott mál“. Ragnar segist helst vilja menn sem séu sjálfstæðir og nokkuð góðir í lögfræði. „En ég veðja bara á þennan unga mann og vona að hann sýni að hann sé gjörsamlega óháður þeim sem fara með völdin í samfélaginu“ og bætir því við að það sé ekki síst mögulegt vegna en ekki þrátt fyrir frændsemi við forsætisráðherra. Hún gæti „einmitt haft þau áhrif að hann yrði enn sjálfstæðari – ef það er einhver bakfiskur í honum sem ég vona að sé“.

Af þessu má sjá hversu mikið er til í því að skoðanir manna á þessari embættisveitingu dómsmálaráðherra fari eftir því hvar í flokki þeir standa, þó eflaust sé það rétt að einhverjir telja af stjórnmálaástæðum rétt að gera sem mest þeir mega úr ágreiningi um hana.