Helgarsprokið 11. apríl 2004

102. tbl. 8. árg.
Það er hægt að hafna þeirri gjöf, afneita þessari náð.
Það mætti banna íslensku þjóðinni að lofa þennan Guð á þjóðhátíðum og endranær. En það myndi í engu breyta því, að ríki hans stendur frá kyni til kyns, að hann er um allar aldir Guð allra landa og sólkerfa, að Jesús Kristur var krossfestur til eilífs lífs fyrir hvert jarðarbarn.
Við breytum ekki staðreyndum. En við tökum afstöðu til staðreynda.
Við getum neitað að taka grunnstaðreynd tilverunnar til greina. Hún haggast ekki við það. Ég get hafnað Guði. Hann er Guð eftir sem áður. Ég er aðeins að gera mig viðskila við uppsprettu lífs míns, snúa baki við ljósi lífsins.
– Sigurbjörn Einarsson, „Kirkja og þjóð“, birt í Um landið hér, bls. 247.

Þ að bar til á síðasta ári að forysta ungra Samfylkingarmanna braut odd af oflæti sínu og sendi Jóhannesi Páli páfa bréf, þar sem hann var í fullri vinsemd upplýstur um það að nánar til tekin atriði í kenningum kaþólsku kirkjunnar stæðust því miður ekki kosningayfirlýsingu Samfylkingarinnar. Íslenskir fjölmiðlar sögðu rækilega frá sendingunni og birtu myndir af því þegar fulltrúum kaþólsku kirkjunnar á Íslandi var afhent bréfið með ósk um að koma því sem allra skjótast til áskrifaðs viðtakanda til þóknanlegrar meðferðar og afgreiðslu. Reyndar var um tíma svo að íslenskir ungkratar gátu ekki einu sinni ræskt sig án þess að fréttamenn væru mættir til þeirra. Á síðustu vikum hefur eitthvað dregið úr fréttaflutningi af þessum mönnum en í staðinn hafa Frjálshyggjufélagið og Verkalýðsfélag Húsavíkur fengið þann sess að allar þeirra ályktanir eru birtar undir stórum fyrirsögnum, helst á útsíðum. Hefur það bæði kosti og galla því mjög er misjafnt hversu mikið vit í ályktunum þessara ágætu félaga.

„Meira að segja ýmsir prestar reyna að laga málflutning sinn að slíkum athugasemdum og hljóta því meira lof sem þeir minnast sjaldnar á Guð en oftar á kvótakerfið, alþjóða- væðinguna og PLO.“

En Samfylkingarmennirnir ungu, sem töldu nauðsynlegt að gera páfanum ljóst hvernig kaþólska kirkjan gæti lagað boðskap sinn að nýjustu borgarnessræðu Samfylkingarinnar, þeir eru svo sem ekki einir á báti. Lengi hafa hinir og þessir látið í ljós þá skoðun að eitt og annað í boðskap eða helgihaldi kirkna sé ekki nægilega nútímalegt, ekki nægilega í „takti við tíðarandann“. Meira að segja ýmsir prestar reyna að laga málflutning sinn að slíkum athugasemdum og hljóta því meira lof sem þeir minnast sjaldnar á Guð en oftar á kvótakerfið, alþjóðavæðinguna og PLO. Á slíkum bæjum þykir heldur slæmt ef prestur les úr biblíunni en gott ef hann hefur Hörpu „Njáls“ á hraðbergi. Þær kenningar, að kirkjur eigi að vera í takti við tíðarandann, eru hins vegar eitthvað einkennilegar þegar grannt er skoðað. Áður er lengra er haldið er rétt að Vefþjóðviljinn taki fram, að blaðið hyggst ekki segja lesendum sínum hvort og þá hverju þeim er réttast að trúa um þau mál tilverunnar sem síst þykja veraldleg. Þar verður hver að komast að sinni niðurstöðu án hjálpar þessa blaðs. En að því sögðu, þá veltir blaðið fyrir sér hvernig ætlast má til þess að kristin kirkja lagi kenningar sínar að því hvernig vindar blása í dægurumræðu eða því hvaða viðhorf og gildi þykja nútímalegust hverju sinni.

Það er mál hvers og eins hvort hann tekur undir með kristinni kirkju, að Guð hafi skapað himin og jörð, gefið son sinn í dauðann svo mennirnir gætu öðlast eilíft líf og sonurinn svo risið upp á þriðja degi og síðar stigið upp til Guðs á nýjan leik. En þeir sem þetta játa, játa trú á Jesúm krist, hvernig geta þeir ætlast til þess af þeim Guði eða þeirri kirkju sem rekur erindi hans hér á jörðu, að boðskapurinn fari eftir því sem mönnum sjálfum þóknast? Kristin kirkja hlýtur að fara eftir því einu sem hún álítur komast næst vilja þess Guðs sem hún lýtur og getur ekki um kenningar sínar eða helgihald farið eftir skoðanakönnunum, ályktunum eða kannski stjórnsýslulögunum. Hún hlýtur að líta svo á að Guð sé óbreytanlegur jafnvel þó menn sitji og álykti gegn honum dag og nótt. Þeir sem á hinn bóginn gera ekkert með þann boðskap sem kirkjan flytur, játa önnur trúarbrögð eða engin, þeir geta væntanlega látið sér í léttu rúmi liggja hversu nálægt eða fjarri tíðarandanum þessi kirkja heldur sig.

Slíkar umræður eru ekki nýtilkomnar. Alltaf hafa einhverjir talið áríðandi að „uppfæra“ kristindóminn, fá nýja útgáfu, nýtískulegri. Þægilegri í eftirfylgni. Nú á dögum, þegar póstmódernistar eru áberandi og vinna daglangt og árlangt eins og eyðingin hljóða – og, það sem meira er, að sama markmiði – þá ber meira á þessu en stundum áður. En kannski er það bara eins og það á að vera og ekkert að því að menn takist á um mál eins og þessi og hver tíð haldi fram sinni bólu. Er kannski bara hollt ef hver nútíð, ef svo mætti segja, afneitar því sem hin síðasta var hvað sannfærðust um? Gallinn er að vísu sá, að því minni virðingu sem menn bera í dag fyrir því sem álitið var í gær, þeim mun minni ástæðu hafa þeir sömu til að gera kröfu til að þeir á morgun gefi mikið fyrir viskuna í dag.

Eitt skýrasta dæmið um framfarir nútímans má sjá ef menn gera sér ferð þar að sem þjóðvegur eitt liggur yfir Þjórsá. Þar er komin ný brú sem sjálfur Sturla Böðvarsson er búinn að aka yfir in persona. Af brúnni má svo sjá gömlu brúna sem nú er ætluð hrossum. Nýja brúin er auðvitað praktískari en sú gamla; það er hægt að mætast á þeirri nýju og vegurinn liggur beint á hana. Sú gamla er mjó og að austan lá vegurinn að henni ofan brekku og í beygju. Sjálfsagt slysagildra þó almennt hafi nú mönnum láðst að slasa sig á henni. En maður lifandi hvað sú gamla er fallegri. Hún er þó brú, ekki bara planki sem settur hefur verið yfir sjálfa Þjórsá eins og hún eigi ekki betra skilið. Vonandi hefur það verið af sparnaðarástæðum sem ekki var meira haft við nýju brúna. Ekki fer Vefþjóðviljinn að mæla með því að opinberar framkvæmdir séu dýrari en þarf, en var engin ódýr leið til að setja þarna almennilega brú? Nennir ekki einhver að fara með þá hjá Vegagerðinni upp í Borgarfjörð og sýna þeim gömlu Hvítárbrúna, svona til að gefa þeim þó ekki væri nema hugmynd?

Talandi um vegi. Nú vilja framfaramenn fara að leggja þjóðvegi um hálendið. Mikil og góð malbikuð þjóðbraut um hálendið á að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um þrjátíu kílómetra ef ekki meira. Svo munu menn eflaust vilja gera sama við Kjalveg og Sprengisand og hver veit hvað. Jájá, þetta eru allt ábyggilega hin mestu framfaramál, en hvernig er það, eins og Vefþjóðviljinn hefur reyndar áður spurt: Er virkilega ástæða til að brúa allar ár, hefla alla vegi niður í fólksbílafæri og jafnvel merkja gönguleiðir um það hálendi sem fæstir hafa kynnst af eigin raun en flestir eiga sér hugmyndir um? Er kannski réttara, þrátt fyrir allt tískutalið um „greitt aðgengi“, að láta góðan hluta hálendisins enn um hríð útilegumönnum og fuglum himinsins eftir? Svona af því að þetta helgarsprok er hvort eð er orðið undarlegt, er þá nokkuð úr stíl að skjóta enn inn í hálendisvegaumræðuna ljóði Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, Bílferð á heiði?

Um þessa heiði þögnin hafði ríkt
í þúsund ár – og langar aldir vafið
hin dulu fell í mosagráa mýkt
og minjar sínar undir feldinn grafið;
unz auðnin vék og aðrir tóku völd
og akhljóð nýrra tíma um hrjóstrin streymdi.
Þú hinkrar við eitt hrímgað vetrarkvöld
og hugsar: Var það þetta sem mig dreymdi?
Þér berst frá himni og moldu minning hljóð
um móður þinnar gröf í dalnum inni,
um jörð sem drakk þíns föður banablóð,
um bróður þinn sem villtist einu sinni.
Vélhjartað kalt og knátt þig áfram ber,
en kynslóðanna spurning fylgir þér.

Já þetta er að verða með einkennilegri sprokum. Vefþjóðviljinn hefur hingað til fjallað talsvert um þjóðmál en minna um kirkju og trúmál. Blaðið hefur reyndar engin áform uppi um að breyta því, en með því í dag er páskadagur, helgasta hátíð kristinna manna, þá er kannski óhætt að hafa sprok á óvenjulegum nótum og tengja jafnvel saman ríkið og kristnina með einhverjum hætti og þá ekki endilega þeim sem fyrst kemur í hugann þegar það tvennt er nefnt. Meðal þess sem ríkið og kirkjan hafa staðið að undanfarin ár er ritröð sem nefnist Kirkjur Íslands og er þar sagt frá friðuðum kirkjum um land allt, búnaði þeirra og byggingarlist. Þegar eru komin út fjögur bindi en hér gæti orðið úr talsverð ritröð því friðaðar kirkjur á Íslandi eru tvöhundruð og fjórar. Í þriðja bindi, sem út kom á síðasta ári, er meðal annars fjallað um Bræðatungukirkju í Árnesprófastdæmi og birt mynd af altaristöflu hennar, sem er eftir Þorstein Guðmundsson frá Hlíð, máluð árið 1848. Sýnir hún Jesúm neyta síðustu kvöldmáltíðarinnar með lærisveinum sínum og yfir þeim er vísað til 13. kafla Jóhannesarguðspjalls. Þó þar sé sagt frá atburðum skírdagskvölds þá hlýtur að mega ljúka páskadagssproki þar: Símon Pétur ansaði honum: „Herra! hvert ert þú að fara?“ Jesús svaraði honum: „Þangað sem ég fer, getur þú ekki fylgt mér nú; en seinna meir muntu fylgja mér“. Pétur sagði til hans: „Herra! hvers vegna get ég ekki fylgt þér nú strax? eg vil voga lífi mínu fyrir þig“. Jesús svaraði honum: „Muntu þá voga lífi þínu fyrir mig? sannlega, sannlega segi eg þér: haninn mun ekki gala fyrri, en þú verður búinn að afneita mér þrisvar“.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum öllum gleðilegra páska.