Það sem er forkastanlegt varðandi DDT er ekki að efnið er enn notað í Suður-Afríku. Ekki heldur að fimm ríki nota efnið reglulega til að hindra útbreiðslu malaríu og tíu ríki til viðbótar nota efnið í neyðatilvikum. Það sem verðskuldar fordæmingu er að í mörgum ríkjum er efnið ekki notað. Vesturlandabúar þurfa ekki lengur að hafa áhyggjur að malaríu. Sérfræðingar í sjúkdómnum telja að hann felli um tvær milljónir manna á ári, einkum börn undir 5 ára aldri, 90% þeirra eru í Afríku. |
– Tina Rosenberg í grein í New York Times Magazine 11. apríl 2004. |
Bandaríska dagblaðið New York Times er ekki vant að reka umhverfisverndarsinnum einn á lúðurinn. Það gerði þó sennilega undantekningu á páskadag með greininni „What the World Needs Now Is DDT“. Í greininni eru raktar afleiðingar þess að umhverfisverndarsinnar á Vesturlöndum hafa komið því til leiðar að skordýraeitrinu DDT hefur verið úthýst, ekki bara á Vesturlöndum heldur um heim allan. Höfundur greinarinnar tekur að vísu fram að líklega hafi enginn ætlað sér að drepa börn í Afríku með því að hafa áhyggjur af áhrifum DDT á umhverfið. Engu að síður hafi þessar áhyggjur og ákvarðanir sem teknar voru á Vesturlöndum vegna þeirra orðið til þess að DDT er óaðgengilegt í flestum þeim löndum sem þurfa að kljást við malaríu.
Notkun DDT útrýmdi malaríu meðal iðnvæddra þjóða. DDT er enn sem komið er ódýrasta, skjótvirkasta og varanlegasta efnið gegn moskítóflugunni sem ber sjúkdóminn með sér. Eftir útkomu bókarinnar Silent Spring eftir Rachel Carson árið 1962 átti DDT sér ekki hins vegar ekki viðreisnar von því umhverfisverndarsinnar tóku að berjast gegn notkun þess með þeim árangri að efnið var bannað í hverju landinu á fætur öðru. Efnið var bannað í Bandaríkjunum árið 1972. DDT er eitt af svonefndum þrávirkum lífrænum efnum sem við óhóflega notkun, til dæmis stórfellda notkun í landbúnaði, getur safnast upp í náttúrunni. Það er hins vegar ekkert sem bendir til að takmörkuð notkun til sjúkdómavarna leiði til hörmunga í náttúrunni.
Þrátt fyrir þessa kosti sína, segir Rosenberg í grein sinni, er DDT, skordýraeitrið sem losaði þróaðar þjóðir við malaríu, vart notað lengur sem vopn gegn malaríunni. „Þverstæðan er sú að með því að úða efninu í smáum skömmtum innandýra, sem er eina notkun efnisins sem nokkur mælir með í dag, er DDT líklega hvorki hættulegt fólki né umhverfinu. Hugsanlegur skaði sem notkun DDT getur valdið er í öllu falli léttari á metunum en líf barnanna.“
Ígærkvöldi hélt Ríkissjónvarpið áfram að fá hlutlausa sérfræðinga til að tjá sig um þau sjónarmið sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur sett fram um Kærunefnd jafnréttismála og þær reglur sem um hana gilda. Í gærkvöldi varð fyrir valinu Lára V. Júlíusdóttir og var kynnt sem hæstaréttarlögmaður. Sú kynning var alveg rétt, en það hefði svo sem alveg mátt segja áhorfendum frá því að það var einmitt hún sem flutti mál Jafnréttisstofu gegn Leikfélagi Akureyrar á dögunum, þar sem Hæstiréttur sneri algerlega við niðurstöðu Kærunefndar jafnréttismála. Og fyrst minnst er á það mál, þá má skjóta því hér inn að það er vitaskuld rangt sem sérfræðingar eins og Páll Pétursson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, – sem allt í einu er kominn í sjónvarpið eins og sérfræðingur í jafnréttismálum – hafa haldið fram, að í því máli og öðrum slíkum hafi einhver höfðað mál til að fá álit Kærunefndar jafnréttismála fellt úr gildi. Það er þveröfugt, það var Jafnréttisstofa sem höfðaði mál fyrir hönd kæranda, og krafðist þess að dómstóll viðurkenndi að lög hefðu verið brotin. Árni Magnússon, sem ekki er minni fræðimaður en Páll Pétursson og leggur sig ekki síður fram um að ganga í augun á jafnréttisiðnaðinum, hefur talað á sama veg; að Kærunefnd jafnréttismála kveði upp mikla stjórnsýsluúrskurði sem menn þurfi að búa við en verði að öðrum kosti að snúa sér til dómstóla. Enginn fréttamaður – sem þó þykjast hafa mikinn fræðilegan áhuga á þessum málum – virðist sjá neitt athugavert við þessa skoðun félagsmálaráðherranna og enginn virðist benda á að álit Kærunefndar jafnréttismála hefur í raun enga sérstaka þýðingu. Nefndin úrskurðar ekki neitt og álit hennar veitir engum neinn rétt eða skyldu.