Miðvikudagur 14. apríl 2004

105. tbl. 8. árg.
Engum þarf að koma á óvart, þótt mikill stuðningur komi fram í skoðanakönnunum við þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eru áreiðanlega einhver bezt menntaða og bezt upplýsta þjóð í heimi. Stór hluti þjóðarinnar fylgist dag hvern með framvindu þjóðmála en að auki er athyglisvert hversu mikill fjöldi manna tekur beinan þátt í þjóðfélagsumræðum, bæði með því að skrifa greinar í blöð og tjá sig í útvarpi og sjónvarpi.
 – Virkara lýðræði, leiðari Morgunblaðsins í gær 13. apríl 2004.

Það er ekki alveg ljóst hvað leiðarahöfundur Morgunblaðsins í gær er að fara með skrifum sínum um bezt upplýstu og menntuðu þjóð í heimi. Styðja Íslendingar þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að þeir eru beztir í heimi og jafnvel þótt víðar væri leitað eða eru þeir vel til þess fallnir að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum af því að þeir eru beztir? Líklega er leiðarahöfundurinn að halda hvoru tveggja fram.

Að undanförnu hefur helst mátt ætla á Morgunblaðinu að þingmenn Samfylkingarinnar hafi gert mikilvæga uppgötvun fyrir mannkyn með því að flytja fyrir nokkru þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þjóðaratkvæðagreiðsla getur auðvitað vel komið til greina ýmis mál, þær eru til dæmis haldnar mjög reglulega um val á þingmönnum, sveitarstjórnarmönnum og jafnvel sameiningartákni þjóðarinnar en síðast þegar það gerðist valdi minni hluti þjóðarinnar umdeildasta stjórnmálamann landsins sem sameiningartákn yfir meiri hlutann. Það er hins vegar rangt að gefa til kynna að með því að fjölga þjóðaratkvæðagreiðslum sé endilega verið að færa lýðræðið til betri vegar, jafnvel á eitthvað æðra stig sem skrautyrtir stjórnmálamenn kalla „þátttökulýðræði“ og Morgunblaðið nefnir „virkara lýðræði“. 

Í meginatriðum geta menn tekið ákvarðanir með tvennum hætti; annars vegar með því að hver taki ákvörðun fyrir sig um sín mál eða með einhvers konar lýðræði þar sem sumir eða jafnvel allir taka ákvarðanir fyrir aðra. Það er ekki ósanngjarnt að halda því fram að lýðræðislegast sé í raun að hver taki ákvörðun fyrir sig um sín mál. Það er lýðræðislegast að húsmóðir sem ætlar að kaupa egg, mjólk og brauð fái að ákveða sjálf af hverjum hún kaupir þessar nauðsynjar. Hinn kostinn mætti auðvitað kalla þátttökulýðræði þótt boðflennulýðræði væri auðvitað nær lagi því þar eru mættir til leiks alls kyns menn sem hafa allt annan smekk en húsmóðirin á nýlenduvörum en ætla engu að síður að taka ákvörðun fyrir hana. Þeir hafa auk þess hagsmuni sem þeir telja mikilvægari en frelsi húsmóðurinnar til að velja við hvaða kaupmann hún verslar. Það breytir litlu fyrir húsmóðurina hvort þessar boðflennur eru 63 þingmenn eða bezta þjóð í heimi. Hversu bezt sem menn eru menntaðir og upplýstir getur enginn farið nær um það hvaða egg, mjólk og brauð húsmóðirin vill en hún sjálf.

Nú segir auðvitað einhver að ekki standi til að taka ráðin af mönnum eins og húsmóðurinni í innkaupaleiðangrinum með því að vísa hennar málum til þjóðarinnar. En ein rökin sem fylgjendur þjóðaratkvæðagreiðslna nefna eru þó einmitt að með tilkomu lýðnetsins og rafrænna kosninga verði svo auðvelt og gaman að kjósa með lítilli fyrirhöfn um hvað sem er.

En það á einmitt ekki að vera léttvægt, þægilegt eða skemmtilegt að taka ákvarðanir fyrir aðra. Morgunblaðið nefnir að virkjanaframkvæmir og skipulagsmál innan sveitarfélaga séu vel til þess falin að bera undir þjóðaratkvæði. „Sú aðferð er bæði eðlileg og sjálfsögð og hún leysir líka margan vanda. Hún kemur í veg fyrir að sérhagsmunahópar geti stöðvað framgang mála eða haft óeðlileg áhrif á mál. Enginn getur deilt við þann dómara, sem þjóðin sjálf er í atkvæðagreiðslu“, segir í leiðara Morgunblaðsins. Það er út af fyrir sig djarft að nefna skipulagsmál sem dæmi um mál sem henta til almennrar atkvæðagreiðslu eftir klúðrið og markleysuna sem könnun um framtíð Reykjavíkurflugvallar var. Þar var auk þess afar vel skipulagður hagsmunahópur sem lét mest að sér kveða og hafði sigur miðað við upphaflegar leikreglur um nauðsynlega þátttöku en reglunum var svo breytt eftir að úrslit lágu fyrir! Þjóðaratkvæðagreiðslur útiloka ekki frekar en atkvæðagreiðslur á Alþingi að vel skipulagðir hagsmunahópar geti haft mikil áhrif.