Helgarsprokið 15. ágúst 2004

228. tbl. 8. árg.

U m þessar mundir er verið að klambra saman framkvæmdastjórn ESB. Aðildarríkin hafa laumað tillögum að forseta framkvæmdastjórnarinnar um hvaða fólk er þeim þóknanlegt að eigi sæti í framkvæmdastjórninni. Eins og Vefþjóðviljinn hefur bent á hafa aðildarríki ESB með hrossakaupum í reykmettuðum bakherbergjum komist að samkomulagi um að Portúgalinn José Manuel Barroso verði valdamesti maður sambandsins, forseti framkvæmdastjórnarinnar. Eins og jafnframt var bent á hafa fæstir borgarar sambandsins heyrt mannsins getið áður, hvað þá að þeir þekki til verka hans. Það skipti heldur engu máli enda voru og verða þeir ekki spurðir álits. Valið á forseta framkvæmdastjórnarinnar og öðrum meðlimum hennar er í höndum örfárra sem tilheyra efsta lagi elítu sambandsins. En hvaða máli skiptir það, gæti einhver spurt. Á það ekki við um svo marga embættis- og jafnvel stjórnmálamenn sambandsins? Ekki eru til dæmis Evrópuþingmennirnir kosnir í öllum löndunum, heldur velur hvert land sína. Hárrétt, en munurinn er auðvitað sá að framkvæmdastjórn ESB er svo valdamikil að margir ráðherrar í vestrænum lýðræðisríkjum eru grænir af öfund. Og eins og nýlegt dæmi af Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi fjármálaráðherra og formanni Alþýðubandalagsins, sannar, þá eiga margir stjórnmálamenn sér þá ósk heitasta að öðlast sem mest völd og gera ýmislegt til að stuðla að því.

„Þrátt fyrir fullyrðingar ýmissa heittrúaðra íslenskra ESB-sinna um annað þá er Ísland ágætlega komið utan ESB. Það er líka athyglisvert að margar kannanir á ýmsum tímum í ýmsum aðildarríkjum ESB hafa leitt í ljós mikla andstöðu við ESB og stundum hefur meirihluti íbúa ýmissa ríkja verið andsnúinn aðild lands síns að ESB.“

Seta í framkvæmdastjórn ESB uppfyllir að miklu leyti óskir slíkra stjórnmálamanna. Völd framkvæmdastjórnarinnar ná til dæmis yfir stórt svæði, öll aðildarríki sambandsins. ESB skiptir aðildarríkin sífellt meira máli og ákvarðanir, sem teknar eru á vegum sambandsins, snerta sífellt fleiri fleti daglegs lífs borgara í aðildarríkjunum. Ekki nóg með það. Hlutverk framkvæmdastjóra ESB er mun meira en ráðherra í vestrænum lýðræðisríkjum. Hjá ESB eru þeir æðstu menn framkvæmdavaldsins, einna mikilvægustu hlekkirnir í löggjafarvaldinu því það er framkvæmdastjórnin ein sem getur lagt fram lagafrumvarp, auk þess sem framkvæmdastjórnin sér um eftirlit með að samningar og löggjöf sambandsins sé virt. Framkvæmdastjórnin fer jafnframt með framkvæmd fjárlaga og gerð alþjóðlegra viðskiptasamninga. Lýðræðislegt eftirlit með framkvæmdastjórninni er hins vegar ákaflega takmarkað svo ekki sé meira sagt. Enda hefur þrifist óhugnanleg og umfangsmikil spilling í framkvæmdastjórninni og embættiskerfi hennar.

Eins og minnst var á hér að framan er nú verið að velja fólk til setu í framkvæmdastjórninni. Nýlega varð ljóst að Mariann Fischer Boel, matvæla- og sjávarútvegsráðherra Danmerkur, mundi verða framkvæmdastjóri landbúnaðarmála í framkvæmdastjórninni. Var hún valin af José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnarinnar, að tillögu Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana. Þessi ólýðræðislega aðferð við val á framkvæmdastjórninni er afar undarleg, sérstaklega í ljósi valdanna sem fylgja embættinu. Að vísu á Evrópuþingið formlega að samþykkja útnefningu framkvæmdastjórnarinnar þegar hún liggur fyrir en harla ólíklegt er að þingið muni, nema í algerum undantekningartilfellum, hafna framkvæmdastjórn sem búið er að ná samkomulagi um.

Og hversu margir íbúa ESB ætli þekki Mariann Fischer Boel eða verk hennar? Sárafáir auðvitað. Nú efast Vefþjóðviljinn ekki um að hún er ágætiskona og sjálfsagt hæfari til að gegna þessu embætti en margur annar. En skortur á lýðræðislegum vinnubrögðum við val framkvæmdastjóra vekur undrun. Íbúar ESB eiga þess engan kost að senda framkvæmdastjóra ESB lýðræðisleg skilaboð í kosningum. Og hverjum ætli nýútnefndur framkvæmdastjóri landbúnaðarmála hafi þakkað fyrir stöðuna? Jú, nýútnefndum forseta framkvæmdastjórnarinnar og forsætisráðherra Danmerkur. Eins og áður er nefnt er það vissulega alvarlegt í ljósi mikilla valda hennar og að völdin ná langt út fyrir landsteina Danmerkur.

Mariann Fischer Boel er ein valdamesta manneskja ESB. Íbúar sambandsins höfðu ekkert um það að segja að hún fékk þá stöðu eða hvort hún gegnir henni áfram.

Embætti Mariann Fischer Boel er einmitt eitt af stóru embættum framkvæmdastjórnarinnar. Landbúnaðarmálin eru meðal umdeildustu mála ESB, ekki bara innan sambandsins heldur í samskiptum sambandsins við umheiminn eins og Vefþjóðviljinn hefur bent á. Auk þess fer tæpur helmingur fjárlaga ESB um skrifstofu framkvæmdastjóra landbúnaðarmála. Pólitísk ábyrgð framkvæmdastjórans er hins vegar sáralítil og erfitt er að skipta um framkvæmdastjóra, þó að forsetanum hafi verið gert það eilítið auðveldara í kjölfar spillingarmála sem upp hafa komið. En tregðan er mun meiri en þekkist í tengslum við ríkisstjórnir og ráðherra lýðræðisríkja.

Þrátt fyrir fullyrðingar ýmissa heittrúaðra íslenskra ESB-sinna um annað þá er Ísland ágætlega komið utan ESB. Það er líka athyglisvert að margar kannanir á ýmsum tímum í ýmsum aðildarríkjum ESB hafa leitt í ljós mikla andstöðu við ESB og stundum hefur meirihluti íbúa ýmissa ríkja verið andsnúinn aðild lands síns að ESB. Hið óhugnanlega í þessu öllu er að í fæstum „gömlu“ ESB-ríkjunum voru þegnarnir spurðir er löndin gerðust aðilar að sambandinu, eða bandalaginu eins og það hét áður. Og auðvitað eru þegnarnir aldrei spurðir hvort þeir vilji að landið eigi áfram aðild að sambandinu þegar það á annað borð er komið inn.

Ísland er eitt af best settu ríkjum heims efnahagslega, lýðræðislegt stjórnskipulag og réttarkerfi eru til fyrirmyndar, frelsi þegnanna mikið, viðskiptaumhverfi hagstætt, samfélagið og stjórnkerfið er gegnsætt og ef marka má kannanir býr í landinu ein hamingjusamasta þjóð heims. Vissulega má þakka ríkisstjórnum undir forsæti Davíðs Oddssonar mikið af þessu. Óumdeilt er að þær hafa náð gífurlegum árangri í að leiða landið í fremstu röð í æ meira alþjóðavæddum heimi. Það er þó athyglisvert að þau ríki, sem ósjaldan raða sér í efstu „jákvæðu“ sætin í könnunum og rannsóknum á ofannefndum þáttum, eru vestræn ríki sem ekki eiga aðild að ESB, sem sé Ísland, Noregur og Sviss. Það er freistandi að spyrja hvort það sé tilviljun?

Skyldi eitthvað annað vaka fyrir talsmönnum aðildar en heill lands og þjóðar? Sumir hafa látið sér detta í hug að fyrir sumum af helstu talsmönnum aðildar vaki það einna helst að auka líkurnar á starfi í Brussel enda ljóst að íslenskum starfsmönnum mundi fjölga þar, gengi landið í sambandið. Vefþjóðviljinn vill ekki fullyrða að þetta vaki fyrir áköfustu talsmönnum aðildar, en fullyrðir hins vegar að hugmyndirnar um aðild Íslands að ESB eru ekki til þess fallnar að bæta stöðu landsmanna almennt, enda er ESB þekktast fyrir spillingu, óstjórn og svo ólýðræðislegt stjórnarfar að það uppfyllir ekki einu sinni eigin skilyrði sem það setur ríkjum sem óska eftir aðild að því.