Laugardagur 14. ágúst 2004

227. tbl. 8. árg.

S amtök atvinnulífsins fjalla um einfaldanir og misskilning í umræðunni um skattamál í pistli á vef sínum. Tilefnið er umræða um skattamál eftir álagningu skatta og birtingu álagningarskrár á dögunum. Umræðan hefur einkum snúist um samanburð á skattlagningu launatekna og fjármagnstekna, nema ef til vill þegar fólk er að hnýsast í og slúðra um meint laun annarra eins og þau eru birt í tilteknu vafasömu tímariti. Þegar rætt er um skatt á laun annars vegar og fjármagnstekjur hins vegar vill oft bregða við að menn telji að launamenn greiði 38,56% í skatt, nema þeir sem ofan á það greiða svokallaðan hátekjuskatt, sem lögfest hefur verið að fella niður, en að þeir sem hafi fjármagnstekjur vegna hagnaðs fyrirtækja greiði 10% í skatt. Samtök atvinnulífsins segja í pistli sínum að þetta sé misskilningur og benda sérstaklega á að hagnaður fyrirtækja er fyrst skattlagður um 18% áður en eigendur fyrirtækjanna greiða sér arð út úr þeim. Þess vegna séu fjármagnstekjurnar í raun skattlagðar með 26,2%. Þessu til viðbótar verði að líta til þess að hér er um að ræða jaðarskattlagningu, það er að segja skattlagningu hverrar viðbótarkrónu sem aflað er. Meðalskattlagningin á launatekjur er mun lægri en skatthlutfallið gefur til kynna, nema hjá þeim sem hafa mjög margar milljónir í laun á mánuði, þá er munurinn á jaðarsköttum og meðalsköttum minni.

Ýmis fleiri tæknileg atriði eru rædd í pistli Samtaka atvinnulífsins en af tillitssemi við lesendur verður ekki farið út í þau hér. Engu að síður skal hér endurtekið dæmi Samtakanna um tvo menn sem hafa eina milljón króna á mánuði, annar sem launamaður en hinn í gegnum einkahlutafélag. Dæmið er einfaldað, en niðurstaða þess er sú að launamaðurinn greiðir 35,3% skatt af launum sínum en sá með einkahlutafélagið greiðir 28,4%. Munurinn á þessu eru 6,9 prósentustig, sem að stórum hluta stafar af hátekjuskattinum. Þegar hátekjuskatturinn verður fallinn brott minnkar þessi munur, og hann minnkar enn meira þegar ríkisstjórnarflokkarnir á Alþingi hafa – líklega gegn atkvæðum stjórnarandstöðunnar eins og venja er um framfaramál – lækkað almenna tekjuskattshlutfallið.

Í pistli Samtaka atvinnulífsins er bent á að hófleg skattlagning stuðli að vexti í efnahagslífinu og hafi einmitt gert það undanfarin ár. Í umræðu um þessa hluti vill þetta oft gleymast og einblínt er á einstök dæmi um menn með miklar fjármagnstekjur sem greiði af þeim lægri skatta en launamenn greiða af launum sínum. Lausn sumra á þessu er að rétt sé að hækka skatta á fjármagnseigendur, en rökréttara væri að draga úr þessum mun á skattlagningu með því að lækka skatta á almenna launamenn. Það kallar hins vegar á skattalækkun, og sumir eru einfaldlega á móti henni, þó að þeir setji andstöðu sína jafnan í einhvern áferðarfallegri búning.