Undanfarið hefur talsvert verið látið með kvikmynd nokkra – jafnvel kölluð heimildarmynd – sem Bandaríkjamaður einn, Michael Moore, hefur gert, í þeim yfirlýsta tilgangi að telja sem flesta landa sína af því að greiða George W. Bush forseta atkvæði sitt í væntanlegum kosningum. Áður hafði Moore gangrýnt landa sína fyrir ofát og ríkidæmi og getur þessi frjálslega vaxni auðmaður talað af nokkurri reynslu í þeim efnum. Víða á Vesturlöndum halda kaffihúsaspekingar varla vatni yfir myndinni og telja hana hina merkilegustu. Hér á Íslandi hefur hún verið sýnd um skeið og töluvert hampað, rétt eins og víða erlendis. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er það gert sem aðrir fjölmiðlar hefðu að ósekju mátt reyna, birt nokkurs konar úttekt á myndinni, eða kannski öllu heldur rakinn mýgrútur dæma um blekkingar sem Moore þessi beitir til að sannfæra áhorfendur um málstað sinn, eða til að gera hlut Bush og repúblikana sem verstan. Úttektin er á heilli opnu og er ástæða til að vekja athygli á henni, enda eru dæmin fjölmörg og sláandi og segja talsvert um réttmæti þess að kalla kvikmynd þessa „heimildarmynd“, eða að ræða hana sem slíka. Þeir sem vilja fræðast um vinnubrögð Michaels Moores, eða fá hugmynd um það hversu mikið er varið í verk hans og þær dómnefndir sem hampa þeim, þeir hefðu ef til vill áhuga á að nálgast þetta nýjasta tölublað Viðskiptablaðsins og kynna sér málið nánar.
Vitaskuld verða dæmin ekki öll rakin hér, en taka má nokkur af handahófi:
* Moore sýnir nokkrar blaðafyrirsagnir til þess að renna stoðum undir að Gore hafi sigrað. Ein er úr blaðinu „Pantagraph“ og er svona: „Ný endurtalning sýnir að Gore vann kosningarnar.“ Staðreyndin er sú að þetta var ekki fyrirsögn á frétt í blaðinu heldur aðsendri grein frá lesanda! Moore stækkaði hana til þess að láta hana líta út sem frétt og límdi hana reyndar inn í tölublað frá 19. desember, en greinin birtist 5. desember. Blaðið hafði samband við Moore vegna málsins en hann hefur engu svarað. |
* Moore sýnir Bush halda ræðu fyrir fullum sal kjólfataklæddra fyrirmenna: „Sumir kalla ykkur elítu, ég kalla ykkur bakland mitt,“ segir Bush og uppsker hlátur „ríka fólksins“. Þetta er sýnt eftir að gefið er í skyn að Bush hafi ráðist inn í Írak til þess að tryggja ýmsum fyrirtækjum stórgróða. Það sem ekki kemur fram er að fundurinn sem Bush ávarpaði var haldinn í fjáröflunarskyni fyrir kaþólsk líknarsamtök í New York. Það kemur heldur ekki fram að hinn heiðursgestur fundarins var Al Gore. Loks kemur ekki fram að það er hálfrar aldar hefð á þessum fundum að ræðumenn kvöldsins geri grín að sjálfum sér. Þannig sagði Al Gore í sinni ræðu: „Fyrir þessum fjáröflunarfundum er löng og mikilvæg hefð – sem ég fann upp!“. Á fundinum söfnuðust yfir 100 milljónir króna sem varið er í læknisþjónustu við fátæka. |
* Moore gerir mikið úr tengslum Bush-fjölskyldunnar við Sádí-Arabíu og einkum bin Laden-fjölskylduna. Lykillinn að þessum tengslum er fjárfestingarfélagið Carlyle Group. Bush eldri sinnti um skeið ráðgjafarstörfum fyrir fyrirtækið og bin Laden-fjölskyldan fjárfesti í því. Hvorug tengslin eru fyrir hendi í dag. Því er haldið fram í myndinni að Carlyle (og þar með bæði Bush- og bin Laden-fjölskyldurnar) hafi grætt á hryðjuverkunum 11. september vegna þess að fyrirtækið eigi hlut í hergagnaframleiðandanum United Defense. Ekki kemur hins vegar fram í myndinni að eina hergagnaframleiðslan sem Bush-stjórnin hefur ýtt út af borðinu er 11 milljarða dala eldflaugavarnarkerfi frá… United Defense. |